16.1 C
Selfoss

„Maður er náttúrulega ekkert nema heppinn í þessu lífi“

Vinsælast

Á morgun, fimmtudaginn 14. desember kl 21:00 ætla fimm af fremstu djassöngkonum landsins, Rebekka Blöndal, Kristjana Stefáns, Ragga Gröndal, Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir og Sigrún Erla Grétarsdóttir að blása til jólatónleika í anda Ellu Fitzgerald á Sviðinu á Selfossi ásamt kvartett Vignis Þórs Stefánssonar og blásarasveit.

“Við Rebekka Blöndal, djasssöngkona ársins og fyrsti íslenski djasssöngvarinn sem hlýtur þau verðlaun, frænka mín og vinkona, fengum hugmynd fyrir tveimur árum um að gera Ellu Fitzgerald heiðurstónleika. Hugmyndin spratt upp frá því að við erum jú báðar djasssöngkonur og deilum einlægri ást á Ellu Fitzgerald. Við hóuðum saman skemmtilegu fólki og úr urðu dásamlegir tónleikar í Salnum í einni Covid glufunni sem myndaðist það árið. Það gekk svo vel að við endurtókum leikinn tvisvar sinnum í Salnum og svo fórum við með tónleikana norður í Hof á Akureyri núna í október sl.,“ segir Kristjana Stefáns í samtali við Dagskrána.

Kristjana var búin að ganga lengi með hugmyndina um að syngja efni af tveimur þekktustu jólaplötum Ellu Fitzgerald. „Eftir þriðju Ellu tónleikana í Salnum fórum við stelpurnar að ræða um stemninguna og hvað okkur þótti skemmtilegt að syngja saman og ég stakk uppá því að við myndum gera þetta allar saman. Þær lögðu af góðmennsku sinni til að ég gerði þetta ein en ég sagðist vera viss um að þetta yrði miklu skemmtilegra ef við gerðum þetta allar saman þannig að úr varð þetta, Jóla Ella í Salnum og við verðum með tvenna tónleika þar á aðventunni. Svo hafði Þórir samband við mig, sem rekur nýja fallega tónleikastaðinn á Selfossi, Sviðið, og spurði hvort að þetta væri ekki akkúrat eitthvað sem við gætum komið með á Sviðið. Það var auðvelt að segja já við því og er einmitt það sem við ætlum að gera 14. desember.“

Kristjana byrjaði með Jóladjass á Selfossi í kringum árið 1996. „Eftir að Páll Óskar söng með okkur og forsetinn kom sem gestur á 25 ára afmæli Jóladjassins árið 2021 sáum við að það væri ekkert hægt að toppa þetta og ákvaðum að best væri að hætta.“ segir Kristjana og hlær.

Sjö stelpur og sex strákar

„Það góða við Jóla Ellu er að Vignir er á píanóinu, hann leiðir hljómsveitina í þessu verkefni þannig að við erum aftur saman vinirnir, þó að Gunni og Smári séu ekki með okkur, heldur bara okkar fólk í Reykjavík. Við verðum með átta manna band, fjóra blásara og píanókvartett. Þar af eru tvær konur blásarar þannig að við verðum sjö stelpur á sviðinu og sex strákar. Það er gaman að segja að það eru bara konur á bakvið þetta, við erum að sjá um alla framleiðslu og framkvæmd sjálfar, þetta eru risa tónleikar sem við erum að standa fyrir ár eftir ár og það kemur enginn annar framleiðandi að nema við sjálfar. Við Rebekka Blöndal áttum sem fyrr segir hugmyndina og Ragga Gröndal kom inn í þetta með okkur svo við erum þrjár um hituna núna með þessa jólatónleika,“ bætir Kristjana við.

„Þetta eru bara svo dásamlegar plötur og æðisleg músík. Þetta eru djúsí tónleikar, kjólaskipti og fínerí, alvöru glamúr. Mér finnst rosa gaman að koma austur með þetta því ég veit að margir sakna jóladjassins. Það er dásamlegt að láta gamla drauma rætast og að gera það með vinkonum sínum… Maður er náttúrulega ekkert nema heppinn í þessu lífi,“ segir Kristjana að lokum.

Jazzkvartett Vignis Þórs Stefánssonar skipa Vignir Þór Stefánsson á píanó og hammond orgel, Ásgeir Ásgeirsson á gítar, Þorgrímur Jónsson á kontrabassa ot Magnús Tryggvason Eliassen á trommur. Blásarasveitina skipa þau Brett Smith á alto saxófónn, Rósa Guðrún Sveinsdóttir á baritón saxófónn og flautu, Eiríkur Orri Ólafsson á trompet og flugelhorn og Ingibjörg Azima Guðlaugsdóttir á Básúnu. 18 ára aldurstakmark er á tónleikana, húsið opnar kl 20:00 en tónleikarnir byrja kl 21:00. Miðasala er á Tix.is.

Nýjar fréttir