0.6 C
Selfoss

Verslum í heimabyggð

Vinsælast

Betra er að gefa en þiggja og líklega setjum við Íslendingar enn eitt metið þetta árið í verslun og þjónustu í tengslum við jólahátíðina. Tilboðsdagar, sérstakir afslættir og viðburðir ýta við okkur reglulega og tilfinningin getur verið að maður sé að missa af tilboði ársins ef ekkert er keypt. Það er heldur ekki úr vegi að velta því aðeins fyrir sér hvar sé verslað. Skiptir það einhverju máli hvort ég kaupi t.d. bara allar gjafirnar á erlendum vefsíðum sem senda nánast alla leið heim að dyrum?

Mikil fjölbreytni á sterkum grunni

Hér í Sveitarfélaginu Árborg er rík hefð fyrir öflugri verslun og þjónustu sem nær allt til upphafs nítjándu aldar með byggingu Tryggvaskála, hafnarstarfsemi við ströndina og stofnun kaupfélagsins. Á seinni tímum hefur vöxturinn orðið hvað mestur á Selfossi og þar skapast sterkt umhverfi verslunar og þjónustu fyrir landshlutann. Nýjar verslanir og þjónustuaðilar hafa bæst reglulega við og eldri stækkað svo úrval og fjölbreytileiki er með því besta sem finnst utan höfuðborgarsvæðisins. Nýr miðbær á Selfossi hefur svo styrkt þessa ímynd enn frekar.

Slík fjölbreytni er þó alls ekki sjálfsögð. Hún byggist á dugnaði og framtaki einstaklinga sem leggja upp í verslunar- og þjónusturekstur á okkar svæði. Svo býðst okkur íbúunum og gestum okkar að nýta slíkar verslanir, veitingahús og aðra þjónustu sem er undirstaða þess að hægt sé að veita slíka þjónustu áfram. Málið er nefnilega að við íbúar gegnum lykilhlutverki í því að halda allri þessari fjölbreytni gangandi.

Hef ég áhrif?

Fljóta svarið eru já. Og af hverju? Því allir þeir sem nýta sér þjónustu í nærsamfélaginu eru hluti af mikilvægri hringrás. Ef við íbúarnir nýtum okkur ekki starfsemi veitingastaða, bíós eða annarrar verslunar og/eða þjónustu í okkar nærsamfélagi er hætta á að sú sama starfsemi nái ekki endum saman og loki. Um leið fækkar valmöguleikum, stöðugildum á svæðinu, tekjur samfélagsins dragast saman og við gætum í auknum mæli þurft að leita annað með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn.

Þetta er ekki sjálfgefið og því vil ég með þessum stutta pistli minna okkur öll á mikilvægi þess að “VERSLA Í HEIMABYGGД. Ég óska öllum gleðilegrar hátíðar.

Bragi Bjarnason,
formaður bæjarráðs og oddviti sjálfstæðisflokksins í Árborg

Nýjar fréttir