1.7 C
Selfoss

Jólalög, heitt súkkulaði og smákökur

Söngsveit Hveragerðis hóf sitt 27. starfsár núna í haust. Á þessum árum hafa nokkrir kórstjórar stjórnað kórnum, Kristín Sigfúsdóttir, Anna Jórunn Stefánsdóttir og Unnur Birna Björnsdóttir. En enginn þó jafnlengi eins og Margrét Stefánsdóttir en hún kom aftur til okkar núna í haust. Covid árin fóru ekki vel með okkur og tók tíma að komast aftur í gang en við stóðum af okkur storminn og eru félagar í dag á fjórða tug.

Söngsveit Hveragerðis er blandaður kór og hefur hann skapað nokkrar hefðir í gegnum árin. Má þar helst nefna aðventutónleika fyrir jólin þar sem boðið er upp á heitt súkkulaði og smákökur eftir tónleika og gestum gefst kostur á að setjast niður og spjalla.
Þetta hefur ávalt verið mjög notaleg stund á aðventunni.

Í ár er engin undantekning og verða aðventutónleikar haldnir þriðjudagskvöldið 12. desember í Hveragerðistkirkju kl. 20. Kórinn mun syngja fjölbreytt jóla og aðventulög og einsöngvarar eru úr röðum kórfélaga. Einnig fáum við til liðs við okkur gesti frá Tónlistarskóla Árnesinga. Við höldum svo í hefðina og bjóðum gestum upp á heitt súkkulaði og smákökur að tónleikum loknum.

Miðar verða seldir við hurð og athygli er vakin á því að enginn posi verður á staðnum.

Við hlökkum til að sjá ykkur og eiga notalega stund á aðventunni.

Söngsveit Hveragerðis

Fleiri myndbönd