-9.2 C
Selfoss

Partýbúllan opnar á Selfossi

Vinsælast

Hjónin Þórunn Lilja Hilmarsdóttir og Tómas Snær Jónsson opnuðu nýverið vefverslunina Partybullan.is sem sérhæfir sig í sölu á öllu sem gæti vantað í veisluhöld. Þórunn, félags- og sjúkraliði og Tómas bifvélavirki, sem vinnur sem vaktstjóri hjá Securitas eins og er, fluttu á Selfoss úr Reykjavík fyrr á þessu ári og stefna á að opna verslun um leið og þau finna húsnæði við hæfi, en sem stendur er lagerinn í geymslunni heima hjá þeim.

Þórunn hélt að hún myndi aldrei flytja úr Reykjavík en eftir svolitla sannfæringu náði Tómas að koma henni í skilning um að fimm ára dóttir þeirra yrði frjálsari utan erils borgarinnar. „Okkur langaði eiginlega ekki að ala upp barn í Reykjavík, skoðuðum nærumhverfi Reykjavíkur og enduðum á Selfossi og sjáum sko alls ekki eftir þeirri ákvörðun enda er dóttir okkar að blómstra og elskar að vera hér og bíður spennt eftir lítilli systur sem er væntanleg í mars á næsta ári,“ segja hjónin í samtali við Dagskrána.

Vantaði Partýbúllu á Selfoss

„Við höfum hvorugt bakgrunn í partý- eða sölubransanum en varðandi söluhliðina get ég alltaf leitað aðstoðar hjá pabba mínum sem hefur selt æðardúnssængur síðan ég man eftir mér. Ég er mikið fyrir að halda skemmtileg boð og þemapartý og hef verið þekkt fyrir að ganga ansi langt í að skreyta og gera upplifunina sem eftirminnilegasta í þeim og þess vegna fann ég fljótlega eftir að fluttum hingað að það var engin verslun af viti sem gat útvegað veislutengda hluti hér á Selfossi. Við fundum það fyrst í kringum Sumar á Selfossi og afmæli dóttur okkar. Svo þegar við fengum að vita kynið á þeirri sem er á leiðinni var hvergi hægt að kaupa blöðru til að sprengja, þá varð þessi hugmynd til. Svo kom Halloween og ákvörðunin var tekin,“ segir Þórunn.

Ljósmynd: Dagskráin/Helga Guðrún

„Nafnið Partýbúllan tók smá stund að fæðast, það er fullt af partýbúðum á landinu svo við þurftum að leggja höfuðið í bleyti en þetta nafn kom til okkar eitt bíókvöldið og var samþykkt einróma. Við opnuðum formlega núna 28.11 og erum á höttunum eftir húsnæði við hæfi svo þangað til verður geymslan okkar undirlögð af partýdóti,“ segir Tómas og hlær. Þau segja söluna fara ágætlega af stað og að nú þegar séu einhverjir hlutir orðnir uppseldir. Þau séu með birgja víðsvegar um heiminn og eigi von á sendingum í vikunni og næstu viku svo birgðastaðan ætti að vera sæmileg fyrir jól og áramót.

„Draumurinn er að geta þjónustað alla Árborg, Ölfus og víðar um Suðurland og auðvitað að geta opnað verslun til að bæta þjónustuna við viðskiptavini og leyft þeim að koma og sjá og upplifa. Við viljum hvetja lesendur til að kíkja á partybullan.is og tryggja sér skraut fyrir jólin og áramótapartýið,“ segir Þórunn að lokum.

HGL

Ljósmynd: Dagskráin/Helga Guðrún
Ljósmynd: Dagskráin/Helga Guðrún

Nýjar fréttir