-3.4 C
Selfoss

Um eflingu háskólanáms á landsbyggðinni – Suðurlands dæmið

Vinsælast

Það búa ekki allir landshlutar við aðgengi að háskóla en þar með er ekki sagt að íbúar hans hafi ekki aðgengi að námi. Um landið hafa byggst upp þekkingarsetur líkt og Háskólafélag Suðurlands þar sem nemendur geta komið og stundað fjarnám, tekið próf, hitt aðra nemendur og upplifað sig sem hluta af námssamfélagi. Hins vegar er það svo að framboð námsgreina er ekki endilega í samræmi við eftirspurnina, enda er ennþá aðeins takmarkaður hluti námsbrauta í boði sem fjarnám. Því skiptir það gríðarlegu máli að þau svæði sem ekki búa við háskóla leiti allra leiða til þess að efla og auka tækifæri til menntunar, að krefjast þess statt og stöðugt að háskólar landsins efli fjarnámið sitt, fjölgi greinum og verði raunverulega háskólar fyrir alla landsmenn.

Hvað geta svæðin gert?

Fyrir utan það að vera stöðugur þrýstingur á háskólana að efla og bæta sitt fjarnám, taka þátt í þróunarverkefnum og minna stöðugt á mikilvægi þess að landsbyggðin sitji ekki eftir þegar kemur að menntun á háskólastigi, þá hafa svæðin farið misjafnar leiðir að því að efla og hvetja nemendur „innan frá“. Á Suðurlandi var farin sú leið að stofna Vísinda- og rannsóknarsjóð sem hefur það markmið að styrkja lokaverkefni nemenda sem hafa skýra tengingu við Suðurland. Frá upphafi hefur sjóðurinn styrkt 42 verkefni af öllum toga, allt frá BA/BS verkefnum til doktorsverkefna. Þetta eru um 2-3 verkefni árlega og samkvæmt styrkþegum hefur sjóðurinn haft mikla þýðingu fyrir framgang þeirra. Niðurstöður rannsókna nemendanna leiða oftar en ekki af sér ný og áhugaverð verkefni sem nýtast á margan hátt til uppbyggingar á svæðinu, samfélaginu öllu til heilla.

Sjáum til sólar

Þó breytingar gerist oft hægt þá gerast þær engu að síður. Í nýju fjármögnunarlíkani Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins til háskólanna er gert ráð fyrir að 25% af heildarfjármögnun fari í samfélagslegt hlutverk þeirra. Þar segir að með þessum hluta sé ætlunin meðal annars að hvetja háskólana til þess að auka framboð greina í fjarnámi og stuðla að jöfnu aðgengi að háskólanámi. Þó eflaust muni innleiðingin taka tíma er vonin sú að þetta verði skref í þá átt að háskólarnir sjái sér hag í því að bjóða íbúum landsbyggðarinnar upp á fjölbreyttara nám og aðgengi fyrir alla. Í millitíðinni halda þekkingarsetrin áfram að vera staður fyrir nemendur á landsbyggðinni til þess að fara í það fjarnám sem í boði er, veita þeim les- og prófaþjónustu og styrkja innviði náms með öllum tiltækum ráðum.

Opið fyrir umsóknir í Vísinda- og rannsóknarsjóð Suðurlands

Búið er að opna fyrir umsóknir í Vísinda- og rannsóknarsjóð fyrir árið 2024 og er frestur til þess að sækja um til 5. janúar. Við hvetjum nemendur til þess að skoða sjóðinn og sækja um, telji þeir verkefnin sín eiga erindi við Suðurland.

Höfundur er framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands og í stjórn Samtaka þekkingarsetra á landsbyggðinni.

Nýjar fréttir