1.7 C
Selfoss

Þýðingarmikil skref í rétta átt

Vinsælast

Samtök ungra bænda fagna þeim tillögum sem starfshópur ráðuneytisstjóra hefur gert um aðgerðir til að koma til móts við þá grafalvarlega stöðu sem íslenskur landbúnaður, og ekki síst ungir bændur, standa frammi fyrir. Vonandi verður það svo að stjórnvöld muni taka mið af þessari vönduðu ráðgjöf og sýna þannig í verki skilning sinn á gjörbreyttum rekstrarskilyrðum vegna aukinnar vaxtarbyrði til viðbótar við verulegar verðhækkanir á öllum aðföngum.

Fyrir unga bændur skipta tillögur hópsins um nýliðunarstuðning auðvitað miklu máli. Þær eru mikilvæg skref í áttina að því að leiðrétta þá erfiðu stöðu ungra bænda sem hafa hafið búskap á síðustu árum og munu þær tryggja íslenskum sveitum líf til lengri framtíðar. Miklu munar um fjárhagslega stuðninginn sem einnig er almenn viðurkenning á því að þjóðin þurfi á ungu fólki að halda til þess að standa vörð um áframhaldandi fæðuöryggi sitt og framleiðslu fyrsta flokks matvæla við skilyrði sem væntanlega eru hvergi í heiminum betri en einmitt á Íslandi.

Sem betur fer einskorðast tillögur ráðuneytisstjórahópsins ekki aðeins við unga bændur heldur taka þær einnig á öðrum þáttum þar sem skuldir eru miklar eða langvarandi afkomubrestur hefur verið til staðar. Þannig munar mikið um áherslu á greiðslur út á fjárfestingastuðning í því vaxtaumhverfi sem við búum við til viðbótar við þann hraða í afborgunum sem almennt hefur verið krafist. Býlisstuðningur til sauðfjárbænda og tillögur um stuðning til nautgripabænda með holdagripi eru einnig á meðal mikilvægra atriða í tillögum hópsins.

Enda þótt öllum stuðningstillögum verði hrint í framkvæmd er ljóst að áfram verður til staðar stórt gat í rekstri fjölmargra bænda sem ýmist falla undir þessar stuðningsaðgerðir eða ekki. Þeir munu áfram þurfa að drýgja tekjur sínar til að mynda með aukavinnu utan búrekstursins með tilheyrandi fórnarkostnaði gagnvart fjölskyldulífi sínu og frítíma. Við slíkar aðstæður er illt að búa.

Ríkjandi landbúnaðarstefna þjóðarinnar er að mörgu leyti framsýn og metnaðarfull. Henni var ætlað að vera innlegg í endurskoðun búvörusamninga sem átti að eiga sér stað á árinu 2023 en hefur því miður ekki enn litið dagsins ljós. Vonandi er að þessi vinna ráðuneytisstjórahópsins verði grunnur fyrir ríka samstöðu þar sem gripið verði tafarlaust til aðgerða. Vissulega má betur ef duga skal en hér kveður við tón sem eykur ungum bændum bjartsýni á betri tíð með blóm í haga.

Samtök ungra bænda

Nýjar fréttir