Ragnar Sigurðarson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.
Ég vil byrja á því að þakka Rikka fyrir þessa áskorun frá honum og um leið hrósa honum fyrir frábæra uppskrift af hafragraut í síðustu viku. Er búinn að elda þennan graut á hverjum morgni þessa vikuna og get heilshugar mælt með honum.
En í tilefni af því að það er fyrsti í aðventu næsta sunnudag og sú staðreynd að hann Rikki er sennilega eitt mesta jólabarn sem ég þekki þá ætla ég að henda í eina smáköku uppskrift sem engin verður svikinn af um jólin. Og allra síst vil ég hafa Rikka leiðann yfir hátíðarnar.
Þau hráefni sem við ætlum að nota í þessa uppskrift eru:
50 grömm af sykri
200 grömm af púðursykri
150 grömm af al-íslensku eðalsmjöri
1 teskeið af vanillusykri
1 pakki af ROYAL Vanillubúðing (það má skipta þessu út fyrir 100 grömm af flórsykri en ROYAL-inn er talsvert betri)
2 egg
270 grömm af hveiti
150 grömm af Smarties
1 testkeið matarsódi
Við byrjum á því að hræra saman smjöri, sykri, púðursykri, vanillubúðinginn (þurrefnin) og vanillusykurinn. Næsta sem við gerum er að blanda eggjunum við og hræra vel saman. Þegar allt er búið að blandast vel saman þá bætum við útí hveitinu og matarsódanum og hrærum vel. Síðast en ekki síst bætum við Smarties útí og hrærum.
Nú er komið að því að móta smákökurnar en uppúr þessari uppskrift ætti að vera hægt að móta um 30 kúlur. Við leggjum síðan kúlurnar á bökunarpappír og skellum þessu inn í 180°C heitan ofn með blæstri í eitthvað á bilinu 15 til 20 mínútur.
Núna ætti að vera komin góð lykt í húsið og Rikki svo sannarlega kominn í jólaskap.
Að lokum langar mig að skora á vin minn hann Arnþór Tryggvasvon sem er einnig mjög mikið jólabarn. Hlakka til að sjá hvað hann mun galdra fram en hann ku vera sérfræðingur í villibráða eldamennsku.