4.5 C
Selfoss

Tíu ísbúðir á tíu árum

Vinsælast

„Ennþá litla ísbúðin sem við stofnuðum á Selfossi“

„Okkur fannst vanta skemmtilega ísbúð á Selfoss og létum vaða,“ segja Telma Österby Finnsdóttir og Gunnar Már Þráinsson, eigendur ísbúðarinnar Huppu sem fagnar 10 ára starfsafmæli um þessar mundir, í samtali við DFS.is. „Við vorum tvö pör sem stofnuðum Huppu árið 2013, við og vinir okkar Eygló og Sverrir. Huppa var skírð í höfuðið á bestu mjólkurkúnni á sveitabæ ömmu og afa Sverris.

Í tilefni 10 ára afmælisins verður blásið til hátíðlegrar Huppugleði um næstu helgi, 2.-3. desember, í öllum ísbúðum Huppu, þar sem lítill bragðarefur og Huppusjeik verða á 900 kr. og fjölskyldutilboð á 1990 kr.

„Fyrstu tvö árin þróaðist Huppa mikið og vorum við sífellt að fylgjast með þörfum viðskiptavina og gera okkar besta til að mæta þeim. Árið 2015, þegar Huppa var tveggja ára gömul, opnuðum við aðra Huppu í Álfheimum í Reykjavík. Reykvíkingar tóku Huppu ótrúlega vel og síðan þá hefur Huppa opnað á 9 stöðum, 6 á höfuðborgarsvæðinu, ein í Borgarnesi og ein í Reykjanesbæ. Í okkar huga er Huppa ennþá litla ísbúðin sem við stofnuðum á Selfossi fyrir 10 árum síðan en auðvitað er raunveruleikinn sá að umfangið í dag er orðið allt annað en það var til að byrja með. Okkur óraði ekki fyrir því stökki sem fyrirtækið myndi taka þegar við lögðum af stað í þetta ferðalag sem hefur verið bæði krefjandi og skemmtilegt. Árið 2020 gekk Kolka til liðs við okkur sem nýr hluthafi og hefur samstarfið gengið ótrúlega vel og verið Huppu mjög dýrmætt,“ segir Telma.

Gunnar segir áskoranirnar verið mjög margar. „Stórar sem smáar. Þær helstu hafa sennilega tengst örri stækkun á fyrirtækinu en slíkri stækkun fylgja gjarnan vaxtaverkir. Við höfum þurft að læra margt á þessum tíma og höfum gengið á ótal veggi en höfum þá geta stutt við hvort annað og komist í gegnum allskonar ævintýri.

Ísinn klár og engin röð

„Það hefur margt breyst á 10 árum og það er nauðsynlegt að vera alltaf að skoða hvernig maður getur mætt nýjum þörfum og væntingum viðskiptarvina. Huppa hefur prufað ýmislegt og sumt virkað og annað ekki en það er mikilvægt að láta vaða og vera ekki of hræddur við að taka feilspor. Við byrjuðum með nýja þjónustu á síðasta ári sem við köllum Pantað og sótt, þá pantar viðskiptavinur ísinn sinn á netinu og velur hvernær hann vill sækja. Þegar viðskiptavinur kemur þá er ísinn klár og fólk sleppur við að bíða í röð.  Þetta er að vekja mikla lukku meðal okkar viðskiptavina og við komum til með að þróa þetta áfram og gera enn betur.“

Þau segja erfitt að segja til um hvað hafi orðið til þess að Huppa náði jafn miklum vinsældum og raun ber vitni. „Einfalda svarið er kannski góður ís, réttur staður og rétt stund, áhersla á góða þjónustu ásamt smá þolinmæði og dass af þrautseigju. Við vönduðum okkur við að skapa skemmtilegt umhverfi með litum, þægindum, skemmtilegri tónlist og góðri þjónustu og einnig að vera með nýjungar eins og bragðarefsmatseðil, bragðarefi mánaðarins, Huppusjeika, nýja ísrétti og fleira. Við höfum frá fyrsta degi lagt áherslu á góða þjónustu og stór partur af þjálfun okkar starfsfólks snýst um að kenna þjónustu og erum við með ákveðið kerfi sem við fylgjum í því. Umhverfið skiptir einnig máli og þarf að vera hlýlegt, þægilegt og skemmtilegt. Alls ekki flókið en mikilvægt er að vanda sig.“

„Gerið vel við viðskiptavini og starfsfólk“

Aðspurð hvaða ráð þau myndu gefa öðrum sem hyggðu á rekstur í matvælageiranum stóð ekki á svörum. „Látið ykkur allt varða, horfið í smáatriðin, gerið vel við viðskiptarvini ykkar og starfsfólk. Þetta er mikil vinna en um leið ótrúlega gefandi og lærdómsrík. Verið tilbúin að vaða drullupolla og ekki gefast upp.“

Allir ólmir í Huppukrútt

Gunnar og Telma segja að meðal nýjunganna sem hafi slegið í gegn hjá Huppu í gegnum tíðina séu Huppukrúttin. „Huppa bauð fyrst upp á minni stærð af bragaðref sem við köllum Huppukrútt. Það kom til vegna þess að við fundum að yngri krakkar vildu ólm frá bragðaref eins og mamma og pabbi en oft heyrðum við þá setningu “nei ekki bragðaref, hann er alltof stór fyrir þig” eða “ þú nærð aldrei að klára þetta “. Þetta vandamál var auðvelt að leysa og buðum við upp á barna bragðaref í litlu glasi eða það sem við köllum Huppukrútt. Þetta hefur svo verið ótrúlega vinsæl stærð og margir fullorðnir sem kjósa að fá sér Huppukrútt þó svo að það hafi upprunalega verið gert með börnin í huga.“

„Svo er vert að nefna Drauminn en hann er bragaðrefur nr. 1 á matseðlinum okkar. Hann var búinn til á fyrsta ári Huppu og hefur frá þeim degi verið lang vinsælasti bragaðrefurinn. Ég mæli með að fá sér Drauminn og bæta við hockey pulver, hættulega gott. Huppa hefur átt farsælt samstarf við Emmessís en Emmessís hefur hrært ísinn hennar Huppu frá fyrsta degi. Huppa er mjög stolt af ísnum sem hún býður upp á: Ekta íslenskur ís úr íslenskum hráefnum, þar á meðal íslenskum rjóma og smjöri,“ bætir Gunnar við.

Skemmtilegri og bragðbetri matarboð framundan

Um þessar mundir eru þau í óðaönn við að setja upp Huppu í kórahverfinu í Kópavogi. „Við stefnum á að opna hana snemma á nýju ári. Við erum þessa dagana að athuga hvernig viðskiptavinir okkar taka í jarðaberjaís úr vél og erum að bjóða upp á hann á Selfossi og í Garðabæ í dag. Einnig erum við að þróa vöru með Emmessís sem gerir matarboðin og afmælin skemmtilegri og bragðbetri og mun Huppa kynna hana fyrir viðskiptavinum sínum mjög fljótlega.“

„Við viljum nýta tækifærið og þakka okkar frábæra starfsfólki sem hefur verið samferða okkur, stoppað mislengi og kynnst okkur misvel en við erum þeim ótrúlega þakklát öllum sem einu og vitum það mjög vel að Huppa væri ekki Huppa án þeirra. Einnig viljum við þakka viðskiptavinum Huppu fyrir frábærar móttökur á öllum þeim stöðum sem Huppa hefur stigið niður fæti. Við erum ótrúlega sátt þegar við horfum yfir farinn veg og hlökkum til að fylgjast með Huppu í framtíðinni,“ segja þau að lokum.

Nýjar fréttir