-9.2 C
Selfoss

Að skyrpa tyggjóinu á torgið

Vinsælast

Miðbær Selfoss hefur mikið aðdráttarafl, á torginu hefur myndast í skjóli fallegra húsa griðarstaður. Þar veitir skjól Mjólkurbú Flóamanna gamla mjólkurbúið sem varð tákn hins unga Selfoss í upphafi teiknað af Guðjóni Samúelssyni og reist af bændum. Þar er hið virðulega Konungshús frá Þingvöllum, glæsilegt konungskaffi í dag. Hús sem  byggt var sem gististaður fyrir kónginn þegar hann reið konungs-veginn 1907 um Árnesþing með Hannesi Hafstein ráðherra sem fæddist á Möðruvöllum í hinu endurbyggða húsi Friðriksgáfu sem geymir Sviðið okkar nýja, sem flytur okkur söng og menningu.

Þetta nýja bæjartorg á vart sinn líka hér á landi og þó víðar sé leitað, og nú mun framhaldið taka að rísa í enn fleiri glæstum sögufrægum húsum. Bæjartorgið hefur breytt bænum okkar og tjáir Íslandssöguna í glæsilegum húsum sem annaðhvort hafa brunnið eða verið rifin og þar er flóra veitinga og þjónustustaða sem við og ferðamenn njótum. Oft geng ég út á torgið þar er vini að hitta í varpa, allsstaðar að úr heiminum.

Eitt stingur nú í auga, torgið er þakið hvítum slettum eins og fugladriti. En viti menn þetta eru tyggjóslummur sem fólk spýtir út úr sér og er sóðaskapur Íslendinga fyrst og fremst.  Munntóbakspúðum er einnig spýtt á torgið þeir verða börnum og hröfnum að leik.  Greinarhöfundi er sagt að það sé mikið mál að hreinsa þessar slettur?

Spurningin er þessi: Er ekki hægt að taka upp þá mannasiði að setja tyggjóið í ruslatunnur fremur en að skyrpa því fyrir fætur okkar? Það þótti ekki gott þegar gömlu mennirnir tóku um nefið og snýttu tóbakinu í lófann eða jörðina. Enn man ég höfðingjann Böðvar Magnússon á Laugarvatni á hátíðum á 1. des í Menntaskólanum á Laugarvatni hann tuggði skro eða munntóbak en hafði með sér spítudall og spítti svo í boga og hitti í dallinn. Við krakkarnir fylgdumst spenntari með hvort gamli maðuirinn hitti í dallinn eða ekki, en dagskrá hátíðarinnar. Böðvari brást ekki bogalistin. Hvernig væri að tyggjófólkið bæri á sér plastpoka til að spíta í svo þessi sóðaskapur heyri sögunni til?

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir