4.5 C
Selfoss

Alveg óvart barnabók

Vinsælast

Margrét Einarsdóttir gaf nýverið út sína fyrstu bók, barnabókina Ævintýri Þeistareykjabungu, Hjálparsveit Jólanna.

Blaðamaður Dagskrárinnar náði tali af kampakátri Margréti þegar hún kom við í Prentmet Odda á Selfossi og sótti fyrstu prentun af bókinni. „Þessi saga mín varð til í Covid, svona undir lokin. Það var búið að vera eldgos í Fagradalsfjalli og jarðhræringar og það átti að fara að loka okkur inni einu sinni enn. Þá settist ég niður og byrjaði að skrifa á Facebook, tvo til þrjá kafla á viku, bara svona fyrir þau sem langaði í tilbreytingu. Svo fóru nokkrar ömmur að spyrja hvort ég ætlaði ekki að prenta þetta og gefa út, ég var nú ekkert alveg á því. Ári seinna gaf ég bókina þó út á Storytel svo hún er þar líka og eftir að ég fékk snillinginn hana Þórunni Harðardóttur, vinkonu mína, til að teikna myndir við söguna, leiddi eitt af öðru og allt í einu varð til bók, alveg óvart“ segir Margrét og yppir öxlum.

„Í fjalli einu á Suðurlandi er stór hellir. Í helli þessum búa tröll af öllum stærðum og gerðum. Þetta eru einu tröllin sem eftir eru á Íslandi og það veit enginn að þau eru til. Hressandi og fyndin saga um tröllastelpu sem leitar allra leiða til að minna fólkið í mannheimum á hver tilgangur jólanna er,“ segir í lýsingu aftan á bókinni.

„Þetta er saga um að sama hversu ólík við séum og hvaðan við komum, getum við hjálpast að við að ná einhverju takmarki. Eins og til dæmis að bjarga jólunum og fá fólk til að líta uppúr símanum,“ segir Margrét að lokum.

Bókin verður fáanleg á aðventuhátíð á Laugalandi 3. desember nk. Auk þess fæst hún í Litlu lopasjoppunni á Hellu og verslunum A4 á Selfossi og í Skeifunni.

Nýjar fréttir