4.5 C
Selfoss

Plast – bölvun eða blessun?

Vinsælast

Plast er ekki náttúrulegt efni heldur gerviefni sem framleitt er í verksmiðjum. Efnið er gert úr ýmsum náttúrulegum efnum, svo sem olíu og kolum. Fyrsta gerð plastsins var fundinn upp árið 1855 af Alexander Parkes. Þetta plast náði þó ekki vinsældum vegna lélegra gæða þess og hélt því þróun plastsins áfram. Það var ekki fyrr en í byrjun 20. aldar sem Leo Hendrik Baekeland fann upp plast líkt og það sem við notum í dag. Útgáfa Baekeland af plastinu varð afar vinsæl og hefur plastið orðið stór partur af lífi okkar. Plastefni hafa gert margar tækninýjungar í heiminum mögulegar. Sérstaklega vegna ýmissa eiginleika þess svo sem hitaþols, höggþols og eðlisþyngdar. Það er hægt að finna plast í nánast öllu því sem við notum á hverjum degi, á heimilum okkar og í fatnaði. Hér á landi er meðal annars framleitt plast í röragerð, sem frauðplast og í filmu- og pokagerð. En þrátt fyrir hve gagnlegt plastið er, þá er það byrjað að valda skaða í náttúrunni og á okkur sjálfum.

Flestir þekkja eflaust til þess að plast sé orðið stórt vandamál í heiminum í dag. Auðvelt er að leita á internetinu um áhrif þess á líf okkar á jörðinni og umræður um mengun hafsins koma reglulega fram, til dæmis í fréttum, þar sem með fylgja óhugnanlegar myndir af ströndum á kafi í plasti. En þar með er ekki öll sagan sögð, því að megnið af fjölmiðlum tala einungis um stóru plastbútana sem eru auðséðir, en aðeins örfáir tala um örplastið, sem er alveg jafn skaðlegt og stóru bútarnir, þótt að við eigum erfitt með að sjá það með berum augum. Mengun í hafi skiptist í tvo flokka: mengun vegna stærri plastbúta og mengun vegna örplasts. Það tekur langan tíma fyrir plast að brotna alveg niður, alveg frá nokkrum árum upp í nokkrar aldir. Mikið plast skolast upp á strendur en það er aðeins smá hluti af heildarmagni plasts í sjónum. Plast brotnar hægar niður þegar það er í sjó, sem veldur því að það safnast upp í sjónum, sem er ekki æskilegt fyrir lífríkið. Örplast hefur þó ógnvænlegustu áhrifin.

Örplast er skilgreint sem örsmáar plastagnir sem miðað er við að séu um 5 mm eða minni. Það er meðal annars nýtt í dekk og snyrtivörur, en einnig getur örplast myndast þegar stærri plastbútar brotna niður. Örplast uppgötvaðist fyrst í Atlantshafi árið 1971 af sjávarlíffræðingnum Edward Carpenter. Sjófuglar, eins og til dæmis fýlar, innbyrða örplastið í misgripum fyrir mat, því að þeir veiða mat af yfirborði sjávar, þar sem mikið plast flýtur. Fýlar losar sig ekki við plastið og safnast það því upp í líkama þeirra. Á varptíma æla fullorðnir fýlar fæðu ofan í ungana, sem veldur því að ungarnir fyllast af plasti. Þá er hætta á að þeir deyi úr næringarskorti. Örplast hefur einnig fundist í fiski. Árið 2018 var talið að hér við Íslandsstrendur innihéldu um 17% þorsks og 16% ufsa örplast, svo dæmi sé tekið. Þetta örplast berst síðan upp fæðukeðjuna. Sjávardýr innbyrða örplast í sjónum og þegar við neytum þeirra fáum við einnig örplast í líkamann okkar. Einnig hefur örplast fundist í neysluvatni okkar. Á Íslandi er þó frá 20-400 sinnum minna örplast í neysluvatni en annars staðar í heiminum. Árið 2022 uppgötvaðist örplast í fyrsta sinn í blóði manneskju. Þá fundust aðalega plasttegundirnar PET og polyethylene í yfir 80% sýna sem tekin voru. Það veldur vísindamönnum áhyggjum því plastmengun hefur áhrif á frumur líkamans.

Ljóst er að plast og örplast er orðið stórt vandamál í heiminum í dag. Nokkrar leiðir eru til að minnka áhrif plastsins svo sem að minnka óþarfa plast af allskonar umbúðum, finna aðrar lausnir í stað plastsins í umbúðum, flokka allan plast úrgang af heimilum og fyrirtækjum, tryggja að plastrusl fjúki ekki út í náttúruna í roki og svo lengi mætti telja. Til þess að þetta takist þarf allur heimurinn að leggjast á eitt svo að snúa megi þessari þróun við. Eins og staðan er í dag þá er plastið okkur mannfólki og dýrum meiri bölvun en blessun.

Guðný Ósk Atladóttir,
16 ára nemandi í FSu

Nýjar fréttir