-13.8 C
Selfoss

Nautagúllas með hrísgrjónum

Þórarinn Smári Thorlacius er sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Mig langar að byrja á að þakka honum Páli Óla eða Plóla eins og hann er kallaður kærlega fyrir þessa áskorun. Ég hef eldað uppskriftina hans þrisvar sinnum síðan hún birtist í síðustu viku. Það góð var hún. En ég sjálfur er ekki mikið fyrir að flækja hlutina og vil helst elda eitthvað sem er ekki of mikil fyrirhöfn og auðvelt er að ganga frá eftir.

Ég hef sérhæft mig í að elda nautagúllas með hrísgrjónum og ætla því að deila minni uppskrift af því hnossgæti.

Það sem þarf í þennan rétt er eftirfarandi:

500 gr nautagúllas
2 paprikur – ein rauð og ein græn
Stór laukur
2 hvítlauksgeirar
3 gulrætur
Hellingur af sunnlenskum sveppum
Ein 500ml drusla af rjóma
4-5 nautakrafts teningar
Hrísgrjón
Maizena 

Fólki er velkomið að nota hugmyndaflugið við val á grænmeti en ég hef notað þessi hráefni hvað mest.

Best er að elda þetta í potti.

Byrjið á því að skera niður allt grænmetið, ekki of smátt en heldur ekki of stórt.
Muna milliveginn.
Svo er farið beint í það að steikja gúllasið og skellt salti og pipar og alls ekki vera feimin við piparinn, það má vera nóg af honum.
Setjið hvítlaukinn og laukinn útí og steikið í 2-3 mínútur.
Því næst er að skella restinni af grænmetinu úti og steikja það í örlitla stund.
Svo er sett 800-900 ml af vatni út í og látið suðuna koma upp og setjið nautakrafts teningana út í lækkið svo hitann, skellið loki á og látið sjóða í einn og hálfan til tvo tíma.
Því lengur því betra.
Verið viðbúin því að dýrindis ilmur muni umlykja húsið meðan á suðunni stendur.

Til að drepa tímann meðan maturinn mallar er gott að setjast niður við ljóðalestur. En ég mæli með ástarljóðum Páls Ólafssonar, Ég skal kveða um eina þig alla mína daga.

Þegar þetta hefur soðið í sirka einn og hálfan tíma er kominn tími til að fara sjóða hrísgrjónin. Ég kýs að hafa hrísgrjón með þessu frekar en kartöflumús einfaldlega því mér þykja þau betri. 

Rétt áður en grjónin verða tilbúin má fara undirbúa að gera sósuna. Hún er nú ekki flókin. Hellið rjómanum út í og hrærið við og náið suðunni upp aftur. Þykkið þetta svo með Maizenu og smakkið til með salti og pipar. 

Svo er kássan bara sett á disk með hrísgrjónum.

Eins og ég sagði hér að ofan þá þykir mér best að hafa þetta frekar auðvelt og er eftirrétturinn því ansi þægilegur.

Kókosbollur.

Ég vil skora á vin minn Rikard Arnar B Birgisson. Við vorum að koma heim frá glæsilegustu borg Evrópu, Liverpool. En þar talaði hann mikið um hvað hann er mikill matmaður og liggur yfir góðum uppskriftum eins mikið og hann getur.

Ég vil enda þetta á einu heilræði sem Rikki segir alltaf við mann:
Lífið er ein stór uppskrift og við skulum gera hana vel.

Fleiri myndbönd