-11.4 C
Selfoss

Zelsíuz hlýtur Íslensku menntaverðlaunin

Vinsælast

Forseti Íslands afhenti félagsmiðstöðinni Zelsíuz á Selfossi Íslensku menntaverðlaunin fyrir framúrskarandi þróunarverkefni við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær.

Íslensku menntaverðlaunin eru veitt í fimm flokkum; fyrir Framúrskarandi skólastarf, framúrskarandi kennslu, framúrskarndi iðn- eða verkmenntun, hvatningarverðlaun og framúrskarandi þróunarverkefni, sem féll sem fyrr segir, í skaut Zelsíuz.

Er þetta í fyrsta sinn sem verðlaunin koma í hlut félagsmiðstöðvar, en Zelsíuz hefur, í samstarfi við velferðarþjónustu Árborgar, lyft grettistaki við að rjúfa félagslega einangrun barna og unglinga. Verkefnið sýnir mikilvægi þverfaglegs samstarfs til að koma til móts við börn eins snemma og unnt er.

Sveitarfélagið Árborg starfrækir félagsmiðstöðina Zelsíuz sem hefur verið starfandi síðan árið 1980. Í Zelsíuz er boðið upp á uppbyggilegt frístundasstarf fyrir 10 – 16 ára börn og unglinga í frítíma þeirra. Áhersla er lögð á að ná til þeirra barna og unglinga sem þarfnast félagslegs stuðnings og að bjóða upp á fjölbreytileg viðfangsefni. Unnið er í klúbbum, sértæku hópastarfi, opnu starfi og loks stendur félagsmiðstöðin fyrir stórum sem smáum viðburðum.

Snemmtæk íhlutun

Árið 2016 hófst samstarfsverkefni velferðarþjónustunnar í Árborg og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz. Verkefnið byggir á snemmtækri íhlutun sem miðar að því að börn, sem þurfa félagslegan stuðning, fái aðstoð sem fyrst til að koma í veg fyrir að vandi þeirra aukist.

Verkefnið er stuðningsúrræði sem bæði hefur verið unnið á einstaklingsgrunni með tilteknu barni en einnig hefur það tekið á sig mynd sértæks hópastarfs. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun barna og unglinga, styrkja þá og gera að virkum þátttakendum í starfi félagsmiðstöðvarinnar. Persónulegur ráðgjafi veitir barni ráðgjöf og liðveislu  sem stuðlar að félagslegri, siðferðilegri og tilfinningalegri eflningu. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að starfsfólk nálgist unglingana á jafningjagrundvelli.

Eitt af markmiðum verkefnisins er að fá krakkana til að taka þátt og mæta reglulega í félagsmiðstöðina. Frá því að verkefnið hófst árið 2016 hafa ríflega 70% barna eða unglinga sem sótt hafa úrræðið skilað sér inn í frekara starf félagsmiðstöðvarinnar.

Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna fjölþættan ávinning og undirstrika mikilvægi félagsmiðstöðvarstarfs fyrir börn sem standa höllum fæti. Verkefnið er dæmi um farsælt samstarfsverkefni í anda nýrrar löggjafar um samþættingu þjónustu fyrir farsæld barna og er framúrskarandi vitnisburður um þann ávinning sem hlýst af samstarfi ólíkra stofnana, á borð við félagsmiðstöð annars vegar og barnavernd innan velferðarþjónustu hins vegar.

Í BA ritgerð Arnars Helga Magnússonar um verkefnið kemur fram að ávinningur fagfólksins sem tók þátt í verkefninu sé afar mikill, sem og árangur af verkefninu fyrir virkni unglinganna sem nutu góðs af samstarfinu.

Verkefnisstjóri félagsmiðstöðvarinnar er Guðmunda Bergsdóttir.

Nýjar fréttir