-0.7 C
Selfoss

Með gæði byggðarinnar að leiðarljósi

Vinsælast

Með skipulagsáherslum á Selfossi undanfarin ár og mjög örri þróun byggðarinnar hefur bærinn dreifst verulega, lágreist og dreifð byggð flæðir í burtu frá miðsvæði byggðarinnar. Móinn sem ég lék mér í er núna stórt samfélag á frekar illa nýttri jörð, iðandi af bílaumferð og ég er orðin nágranni sveitarbæjanna sem einu sinni voru svo langt í burtu. Stór hluti byggðarinnar hefur hægt og bítandi fjarlægst alla þjónustu. Þrátt fyrir að byggðin sé ágætlega tengd góðu neti göngu- og hjólastíga eru fjarlægðir orðnar of miklar, græn og góð útivistarsvæði eru einnig lengra í burtu og geta ekki tekið á móti öllum. Þetta þýðir að bíllinn er besti vinur okkar, gatnakerfið er þungt og við erum að einangrast í fínu stálkápunni okkar.

Vantar langtímahugsun

Það hefur vantað langtímahugsun og sterkari og skýrari framtíðarsýn í skipulagsáherslum bæjarins, hugtakið sjálfbærni hefur gleymst að miklum hluta. Hvernig getum við breytt þessu og hvernig getum við eflt sjálfbærni við framtíðar þróun og skipulag byggðarinnar? Hvernig getum við nýtt sjálfbærni til að koma bænum okkar á betri stað til framtíðar, íbúum og umhverfi til heilla?

Að huga að sjálfbærni er í raun mikilvægasta tól okkar til framtíðar til að komandi kynslóðir geti lifað í sátt við umhverfið. Með því að huga að sjálfbærni byggðarinnar tökum við tillit til umhverfislegra, félagslegra og efnahagslegra þátta við þróun og skipulag byggðarinnar. Markmiðið er að skapa byggð sem er lífleg, skilvirk og með mikla seiglu en á sama tíma draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þéttbýlismyndunarinnar eins og hvað varðar landnýtingu og notkun vatns og orku.

Fjölbreyttara og heilbrigðara samfélag

Þróun blandaðrar byggðar er einn mikilvægasti þátturinn í átt að aukinni sjálfbærni byggðarinnar. Í fjölbreyttari landnotkun innan þéttbýlis felst að innan sama svæðis sé fjölbreytileiki íbúða-, atvinnu-og þjónusturýma. Þannig byggð getur stutt vistvænni ferðavenjur og lífsstíl íbúa. Með blöndun byggðar geta íbúar haft aðgang að mikilvægri nærþjónustu og öðrum þægindum í göngu- eða hjólafjarlægð frá heimili sínu, en þetta er oft nefnt „15 mínútna hverfið“.

Félagsleg sjálfbærni eykst, færri kjósa einkabílinn til að fara á milli staða, losun neikvæðra gróðurhúsaloftegunda minnkar, loftgæði verða betri, þú getur gengið eða hjólað, þú sérð fleiri, heilsar fleirum og upplifir enn sterkara að þú búir í samfélagi og lýðheilsa verður betri. Mikil gæði felast einnig í því að innan þessarar blönduðu byggðar sé fjölbreytileiki bæði í íbúðagerðum, stærðum, útliti og hæðum, þakgerðum og allt niður í efnisval bygginga, gróðurs og skemmtilega útfærðu gatnakerfi. Við þurfum líka að skapa fallega og skemmtilega ásýnd byggðarinnar með fjölbreyttum gróðursælum rýmum og öðrum samverustöðum. Með fjölbreyttum íbúðagerðum myndast svo fjölbreyttara og efnahagslegra betra samfélag þar sem meðal annars ólíkir einstaklingar, með ólíkan efnahag og mismunandi stærðir af fjölskyldum með mismunandi þarfir búa í sama húsi, sömu götu eða hverfi.

Byggingar skapa byggðarformið og móta umgjörð um gatnakerfið og þá í raun umgjörð utan um okkar daglega líf. Því er byggðarformið og hvernig það mætir götunni eða okkar almannarými mikilvægur þáttur við skipulag sjálfbærari byggðar. Einsleit dreifð byggð, fjarri allri nærþjónustu, með fáum íbúagerðum, innrömmuð af háum skjólveggjum, gróðursnauð og malbikuð, með bílastæðum í forgrunni, með einsleitum þakformum við óþægileg gatnakerfi, skapar engan fjölbreytileika, byggðin verður óspennandi, erfitt verður að rata um, flutningsþörf eykst, fjölskyldur hafa ekki kost á að stækka og flytja innan hverfis, hverfið verður ósjálfbært.

Góð samvinna lykilatriði

Í okkar ört vaxandi sveitarfélagi eru gríðarlega mikilvæg og dýrmæt tækifæri til aukinnar sjálfbærni við framtíðar þróun byggðarinnar. Við þurfum að stíga fastar til jarðar og skapa hér aukna sjálfbærni með gæði byggðarinnar að leiðarljósi, að skapa spennandi, fjölbreytta og örvandi byggð sem íbúar geta verið stoltir af. Byggð með góðum þéttleika sem myndar grunnstoðir fyrir nærþjónustu, byggð þar sem íbúum líður vel til framtíðar. Það er aldrei of seint að reima skóna og spretta af stað, en að skapa aukna sjálfbærni og aukin gæði er samt langhlaup, langhlaup sem getur orðið virkilega farsælt ef hugað er að vönduðum vinnubrögðum, langtímahugsun með sterka framtíðarsýn og kærleika til umhverfis og íbúa í farteskinu. Langhlaupið er þó ekki bara hlaup sveitarfélagsins heldur einnig lóðarhafa, uppbyggingaraðila og hönnunarráðgjafa svo eitthvað sé nefnt. Góð samvinna þessara aðila getur orðið að mikilvægu og sigursælu boðhlaupi fyrir sjálfbærari framtíð byggðarinnar. Áfram Selfoss.

Rebekka Guðmundsdóttir,
borgarhönnuður og meðlimur í skipulagsnefnd Árborgar

Nýjar fréttir