1.7 C
Selfoss

Sunnlensk ungmenni blómstra í Skjálftanum

Vinsælast

Skjálftinn fer fram laugardaginn 11. nóvember í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn. Skjálftinn er hæfileikakeppni fyrir sunnlensk ungmenni byggð á Skrekk sem Reykjavíkurborg hefur haldið fyrir sín ungmenni í meira en 30 ár. Markmið Skjálftans er að efla sköpunargáfu, æfa ungmenni í að hugsa út fyrir rammann, kenna verklag og þjálfa þau í markvissu, langvinnu hópastarfi. Með Skjálftanum er verið að jafna tækifæri ungmenna til náms, óháð búsetu og gefa þeim kost á að kynnast ólíkum störfum innan sviðslista, þar á meðal þeim mikilvægu störfum sem eru unnin á bak við tjöldin. 

Nú í ár fengu allir skólar á Suðurlandi boð um þátttöku, allt frá Þorlákshöfn að Höfn í Hornafirði, en fyrstu skiptin árin 2021 og 2022 var verkefnið í boði fyrir grunnskóla í Árnessýslu og undir takmörkunum covid. Ekki tókst að keyra Skjálftann í gang í öllum skólum Suðurlands þetta árið, en aðstandendur skólanna eru þó jákvæðir fyrir verkefninu og stefna á að vera með verði framhald á Skjálftanum. Að þessu sinni mæta þátttakendur frá eftirfarandi skólum til leiks: Grunnskólanum í Vestmannaeyjum, Bláskógaskóla á Laugarvatni, Reykholtsskóla, Grunnskólanum í Hveragerði, Grunnskólanum í Þorlákshöfn, Vallaskóla og Sunnulækjarskóla. 

Auk atriðanna frá skólunum kemur Prettyboitjokko fram með lagið Skína sem ungmennin í þátttökuskólum völdu sem Skjálftalagið 2023. Hann ætlar svo að láta ljós sitt skína í nokkrum lögum til viðbótar. Kynnar kvöldsins eru Sirrý Fjóla, leik- og sirkuslistakona og Matti, sem er annar af þeim sem skipa hljómsveitina Væb. Í dómnefnd sitja Ástrós Guðjónsdóttir dansari, Júlí Heiðar leikari og tónlistarmaður og Þórdís Björg leikkona og Reykjavíkurdóttir.

Verkefni sem eflir þátttakendur og skólabrag

Verkefni í anda Skrekks getur haft gríðarlega jákvæð áhrif á þátttakendur og skólabrag og kom það meðal annars í ljós í rannsókn frá árinu 2020 sem bar heitið Að vekja listina í sjálfum sér: ávinnungur nemenda af þátttöku í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkurborgar og nálgast má á Skemmunni. Þá sögðu þátttakendur eftir fyrsta Skjálftann 2021 meðal annars: ,,Ég náði að ýta sjálfri mér til að gera eitthvað sem ég hefði aldrei gert og ég er mjög ánægð“ og önnur sagði:  Ég varð minna þunglynd og kynntist fullt af krökkum“ og enn annar: „Mjög góð reynsla, þetta bætti meiri fjölbreytileika í skólalífið sem er æði“. Þetta er aðeins brot af þeirri jákvæðu upplifunum sem þátttakendur lýstu. 

Skjálftinn er óhagnaðardrifið verkefni sem sett var af stað og rekið af Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur. Um ástæðu þess segir hún: ,,Ég brenn fyrir því að öll ungmenni finni sína fjöl í lífinu og að þau hafi jöfn tækifæri til náms. Listir eru mikilvægur hluti af námi og Skrekkur er mikið fyrirmyndarverkefni hjá Reykjavíkurborg sem er löngu tímabært að dreifi sér í önnur sveitarfélög. Á sama tíma og Skjálftinn varð til bjó ég til handbók um innleiðingu á Skrekk í góðu samstarfi við aðstandendur þess verkefnis og notagildi hennar sýndi sig þegar Fiðringurinn var settur á laggirnar, en hann er hæfileikakeppni ungmenna á Norðurlandi. Áhugasamir einstaklingar úr öðrum landshlutum hafa einnig sett sig í samband og fengið handbókin svo ég vonast til að verkefni í anda Skrekks verði að veruleika um allt land”. 

Það er Sambandi Sunnlenskra Sveitarfélaga að þakka að hægt er að halda Skjálftann því þau standa myndarlega að baki honum þetta árið, Sveitarfélagið Ölfus styður einnig við Skjálftann. Framtíð Skjálftans er hins vegar óljós því ekkert liggur fyrir um fjármögnun komandi ára.

Nánari upplýsingar um Skjálftann má sjá á skjalftinn.is og hægt er að fylgjast með fjörinu í gegnum instagram síðu Skjálftans. 

Nýjar fréttir