1.7 C
Selfoss

Kartöflugeymslan á Selfossi

Vinsælast

Um þessar mundir eru flestir búnir að taka upp kartöflur og annað grænmeti, en það er ekki hægt að setja uppskeruna í kartöflugeymsluna á Selfoss að Jórutúni 16. En nokkru áður hafði síðasti einstaklingurinn í félaginu Kartöflugeymslan á Selfossi, skilað inn lyklunum að geymslunni til bæjaryfirvalda. Þetta félag hafði haft geymsluna á leigu í ein 31 ár og þá fyrir hinn almenna bæjarbúa, þar sem þeir gátu geymt uppskeru sína við kjöraðstæður gegn vægu gjaldi. Samkvæmt samningi bæjarfélagins við félagið þá var húsnæðið leigufrítt en leigutaki sá um innan- og utanhússviðhald. Í framhaldinu var send fyrirspurn á bæjarráðið um það hvað bærinn ætlaði að gera við kartöflugeymluna að Jórutúni 16. Bæjarráðið tók ekki afstöðu til erindisins en vísaði því til Mannvirkja- og umhverfissviðs Árborgar til frekari úrvinnslu, sjá fundargerð þeirra þann 5. okt. sl.

Bærinn hefur ekki enn svarað því hvað hann ætlar að gera við geymsluna, sem var upprunalega byggð sem kartöflugeymsla og tekin í notkun sem slík árið 1952. Siðan þá hefur hún þjónað bæjarbúum sem kartöflugeymsla eða samfellt í rúm 70 ár. Fyrir þá sem ekki vita þá er bragginn í Jórutúni mjög góð kartöflugeymsla. Kartöflurnar geymast þar bæði vel og lengi og þá við kjöraðstæður, þ.e.a.s. við lágt hitastig eða um 4°C og í dimmu og röku húsnæði. Kartöfluuppskeru er ekki hægt að geyma í upphituðum bílskúr, þær einfaldlega skemmast vegna mikils hita og lágs rakastigs.

Á sl. árum hafa um 20 til 30 fjölskyldur verið að geyma kartöfluuppskeru sína í kartöflugeymslunni að Jórutúni. Og það hefur sýnt sig að ef það kreppir að hjá fólki þá rækta fleiri sínar eigin kartöflur eins og skeði eftir hrunið 2008. Þetta getur verið ágætis búbót að rækta sínar eigin kartöflur og þær verða ekki betri en ef þú ræktar þær sjálfur. Þetta skiptir bæjarbúa máli, fólki sem þarf að greiða tiltölulega háa skatta þar sem sveitarfélagið er með skuldugustu sveitarfélögum landsins m.v. höfðatölu. Ef bærinn ætlar ekki að leyfa fólki bæjarins að nota braggann áfram sem kartöflugeymslu, ætlar hann þá að byggja aðra kartöflugeymslu fyrir bæjarbúa? Eða eru það kannski einhverjir fjárfestar, sem hafa áhuga á landinu þar sem bragginn er?

Það þarf að svara þeirri spurningu hvort að stærsti þéttbýliskjarni Suðurlands, sem staðsettur er í stærsta landbúnaðarhéraði landsins, eigi ekki að hafa eigin kartöflugeymslu? Bær, sem þrífst á þjónustu við hið mikla landbúnaðarhérað. Væri það ekki í takt við hina „grænu stefnu“ að bæjarbúar hefðu áfram aðgang að eigin kartöflugeymslu?

Aldís Sigfúsdóttir
Verkfræðingur

Nýjar fréttir