16.1 C
Selfoss

„Endurskinsmerki gætu bjargað lífi barnsins þíns“

Vinsælast

Jón Sverrisson, bílstjóri hjá Steypustöðinni á Selfossi lýsir óánægju sinni með merkingar Vegagerðarinnar víðsvegar um Suðurland sem sjá má á meðfylgjandi myndum frá Guðna Sveini Theodórssyni. Jón segir þetta óásættanlegt og kallar eftir úrbótum. Þá segist hann hafa þungar áhyggjur af þeim fjölda fólks og barna sem hann sér, ekki nógu vel, í skammdeginu sem gengið er í garð.

Í myrkri sjást gangandi og hjólandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu og ökuljós bifreiða og er notkun endurskinsmerkja þess vegna mikilvæg og í sumum tilfellum nauðsynleg.

„Það er staðreynd að ökumenn sjá óvarða vegfarendur með endurskin fimm sinnum fyrr en ella og því getur notkun endurskinsmerkja skilið milli lífs og dauða. Allir ættu að nota endurskinsmerki, jafnt börn sem fullorðnir. Börn sjást verr en fullorðnir og eiga það auk þess til að taka hvatvísar ákvarðanir án þess að hugsa um þær hættur sem eru fyrir hendi. Mikilvægt er að foreldrar noti endurskinsmerki til þess að sýna börnum sínum gott fordæmi,“ segir á island.is í grein um öryggi vegfarenda.

Jón segir í samtali við Dagskrána að á hans yngri árum hafi börn ekki fengið að fara út á ljóslausum reiðhjólum. Það hafi einfaldlega ekki verið í boði „Þrátt fyrir það hörmulega atvik sem átti sér stað í Hafnarfirði 30. október síðastliðinn, þegar átta ára drengur lést eftir að hafa orðið fyrir steypubíl, sé ég fjöldan allan af ljóslausum börnum á hinum ýmsu farartækjum um allan bæinn. Mörg þeirra eru alveg endurskinslaus og það veldur mér þungum áhyggjum. Ég var til dæmis að aka eftir Eyravegi á Selfossi í morgun og sá þar konu sem fylgdi tveimur börnum á hjólum. Konan var dökkklædd og engin endurskinsmerki á hjólunum. Þetta er ekki í lagi. Ég vil að foreldrar opni augun fyrir þeim hættum sem geta skapast við þessar aðstæður og endurskinsmerki börnin sín í bak og fyrir. Endurskinsmerki gætu bjargað lífi barnsins þíns.“

Nýjar fréttir