Þegar ég hugsa um framtíðina í Þorlákshöfn þá sé ég ekki aðeins öfluga atvinnuuppbyggingu, ég sé líka blómlegt mannlíf. Mannlíf sem byggir bæði á krafti þeirra sem hér búa og því umhverfi sem einkennir Þorlákshöfn. Uppbyggingin sem er í gangi þessi misserin er að miklum hluta á gríðarlega stórum skala sem hefur óneitanlega áhrif á umhverfið og upp að vissu marki er það þolanlegt fyrir ágóðan sem fylgir því að fá öflug fyrirtæki inn í sveitarfélagið með fjölgun starfa, fasteignagjalda og svo framvegis. En í allri uppbyggingunni í atvinnulífinu má ekki gleymast að á sama tíma þurfum við líka að byggja upp mannlíf, útivstarsvæði, huga að umhverfinu og lífsgæðum þeirra sem hér búa og munu búa í framtíðinni. Við berum ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum.
Nú stendur til að setja landfyllingu á svæðið við Hafnarnesvita, sem þykir algjörlega einstakt til þess að stunda brimbrettaíþrótt. Í raun segir Brimbrettafélag Íslands að Þorlákshöfn sé hjartað í brimbrettaiðkun á Íslandi og að ef landfyllingin verður að veruleika muni það hafa verulega neikvæð áhrif á íþróttina. Ástæðan fyrir því er tvenns konar; hún hefur áhrif á ölduna, styttir hana og býr til endurkast og framkvæmdin setur þau sem stunda íþróttina í mikla hættu þegar þau lenda við landfyllinguna þar sem erfitt getur reynst að komast upp úr sjónum.
Félagið sem ekki er úr Ölfusi
Brimbrettafélagið er ekki einu sinni félag í sveitarfélaginu! Af hverju eigum við að standa vörð um þeirra hagsmuni?
Þetta er spurning sem heyrist víða þessa dagana, og skiljanlega. Af hverju eigum við að standa vörð um svæði sem fólk nýtir sem keyrir bara inn í bæinn, fer sömu leið til baka og skilur ekkert eftir sig? Eða er það raunverulega þannig þegar við skoðum málið nánar?
Ég sá íbúa í Þorlákshöfn skrifa inn á samnefndan hóp á Facebook að ástæða þess að hann flutti hingað var svo hann gæti búið á sama stað og aldan sem hann sækir og hann hlakkar til þess að sonur hans verði nógu stór til að fara með honum og læra á brimbretti. Ég veit um hjón sem fluttu til Þorlákshafnar fyrir nokkrum árum og búa hér með börnin sín, en þau kynntust einmitt við brimbrettaiðkun í Þorlákshöfn. Ég hitti reglulega fólk í sundi sem var að koma úr sjónum þar sem það er í sæluvímu eftir að hafa stundað sína íþrótt. Ég vann einu sinni á Hendur í höfn, kaffihúsinu sem við söknum mörg, og hitti þar fyrir hjón sem voru í brúðkaupsferð alla leið frá Ástralíu og komu sérstaklega til Þorlákshafnar til að prófa þessa umtöluðu öldu, hún er nefnilega “heimsfræg” í alþjóðlega brimbrettasamfélaginu og hefur verið um hana fjallað hjá fjölmörgum alþjóðlegum fjölmiðlum og áhrifavöldum, sem hefur sannarlega auglýsingagildi fyrir sveitarfélagið Ölfus. Sveitarfélag sem hefur einmitt markaðssett sig með brimbrettafólk í forgrunni þegar það hefur hentað.
Brimbrettaíþrótt varð samþykkt ólympíuíþrótt árið 2020 og er fyrsta kynslóð íþróttafólks að stunda hana hér á Íslandi. Hún er í uppbyggingarfasa en um 500 manns stunda hana reglulega og mikil fjölgun hefur orðið á iðkendum undanfarin ár. Það skýtur skökku við að sveitarfélagið Ölfus sem setur margar milljónir á ári í stuðning við ýmsar íþróttir og stendur vel að uppbyggingu á íþróttamannvirkjum sé á sama tíma að verða þess valdandi að forsendur fyrir annarri íþrótt bresti, ekki bara í sveitarfélaginu heldur á landsvísu. Íþrótt sem sveitarfélagið þarf í raun ekkert að setja pening í til að dafni því aðstæður fyrir íþróttina eru fullkomlega sjálfbærar og viðhaldsfríar. Hvað vitum við um það hvernig þessi íþrótt þróast innan sveitarfélagsins. Eftir nokkur ár gæti jafnvel verið til öflugt Brimbrettafélag Ölfuss, því þeim fer fjölgandi íbúunum sem stunda þessa íþrótt. Einu sinni átti Þorlákshöfn ekki körfuboltalið en nú þekkja allir Þór í Þorlákshöfn.
Svæðið er á náttúruminjaskrá
Þetta svæði sem um ræðir er á náttúruminjaskrá. Í umsögn Umhverfisstofnunar um fyrirætlanir um landfyllingu er mat þeirra að uppbygging á svæðinu sé farin að hafa áhrif á útivistargildi þess. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að hugað sé að verndun svæða til útivistar og skoðaðir séu aðrir valmöguleikar varðandi uppbyggingu athafnasvæðis. Auk þess bendir stofnunin á að nú er töluverð starfsemi fiskeldis meðfram suðurströnd og frekari uppbygging í farvatninu. Því telur hún mikilvægt að metin séu sammögnun áhrifa þeirrar uppbyggingar sem hefur átt sé stað og eru fyrirhuguð, með tilliti til útivistar og hvort tillagan hafi neikvæð áhrif á verndargildi náttúruminja.
Þetta snýst ekki bara um Brimbrettafélagið, heldur einnig um svæði sem er á náttúruminjaskrá og almennt um útivistarsvæði í Þorlákshöfn. Hvar ætlum við sem samfélag að draga línu í sandinn og standa vörð um útivistarsvæði?
Draumar eða raunveruleg og gerleg framtíðarsýn?
Fjallabyggð er líka að vinna að breytingu á deiliskipulagi þessa dagana en hún snýst um að vernda svæði fyrir brimbrettaiðkun í Ólafsfirði, þar sem áður fyrirhuguð landfylling er alfarið tekin út úr myndinni og þess í stað er verið að byggja svæðið upp með brimbrettaiðkun og útivist að leiðarljósi. Þar er verið að skilgreina hverfisverndarsvæði með það að markmiði að varðveita sjávarbotninn sem skapar öldur sem þykja eftirsóknarverðar fyrir brimbrettaiðkun og byggja upp þjónustu og verslun í kringum þá íþrótt, sjósund og aðra útivist.
Ef ég ætti glás af pening þá myndi ég vera að skoða þá hugmynd að setja þarna upp ferðamannastað. Útsýnisveitingahús, heita potta, gufubað, útisturtur, rólóvöll í anda skátanna með endurnýttum efnivið sem tengist sjómennsku og hafinu, kannski einhverkonar sjósóknarsafn sem endurspeglar sögu og þróun atvinnulífs í Þorlákshöfn. Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur? Ég er fullviss um að þetta yrði einn af eftirsóttustu ferðamannastöðum á Suðurlandi, því þó svo að fólk vilji ekki endilega stunda brimbrettaíþróttina sjálft, þá held ég að við njótum þess öll að fylgjast með þessu hugrakka og sterka fólki sem er úti í ísköldu Atlantshafinu að stunda íþrótt sem fólk tengir almennt við hlýrra loftslag og hvítar strendur. Lengi hefur verið talað um að það vanti segul í ferðamennsku hingað í Þorlákshöfn, eitthvað sem dragi til okkar ferðamenn. Kæru Þorlákshafnarbúar, þessi segull er beint fyrir framan nefið á okkur og við erum að fara að skemma hann ef fer sem horfir.
Hver er lausnin?
En þá kallar einhver: ,,Við getum ekki látið svona óraunhæfa drauma og eitthvað brimbrettafélag koma í veg fyrir framþróun í atvinnulífinu í Ölfusi”, sem er skiljanlegt sjónarmið.
En hvað ef við getum bara fært þessa landfyllingu um nokkra metra? Það er nóg af plássi í þessu sveitarfélagi og það vill svo til að athafnasvæði hafnarinnar er með möguleika til þess að stækka í hina áttina, þar sem sandfjaran Skötubót er. Sú fjara er vissulega notuð sem útivistarsvæði en síst hjá þeim hluta við höfnina þar sem skólpið rennur út í sjó og fæstir kjósa að eyða sínum frístundum. Aðgengið niður í fjöru er ágætt hjá golfskálanum og af minni reynslu að dæma þá leggja flestir sínum bílum þar og ganga ofan í fjöru. Því er staðsetningin þeim megin við höfnina mun hentugri fyrir landfyllingu í ljósi þess að svæðið er ekki á náttúruminjaskrá og með meiri möguleikum á áframhaldandi stækkun.
Það er alveg skýrt hjá fulltrúum minnihlutans í Framkvæmdar- og hafnarnefnd að við viljum fylgja fordæmi Fjallabyggðar, vernda útivistarsvæðið sem hér um ræðir, byggja það upp sem slíkt og horfa til mögulegrar framtíðarnýtingu sem getur til að mynda verið í stóraukinni ferðaþjónustu.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir
Bæjarfulltrúi og nefndarmaður í Framkvæmda- og hafnarnefnd Ölfuss