1.7 C
Selfoss

Í góðu spilaformi þrátt fyrir skalla og smá bumbu

Sunnlenska stórhljómsveitin Á móti sól ætlar að blása til tónleikaveislu á Sviðinu þann 11. nóvember næstkomandi. Blaðamaður Dagskrárinnar hafði samband við tvo meðlimi hljómsveitarinnar og fékk að vita aðeins meira um þetta skemmtilega band.

Allt Skímó að þakka

Aðspurðir að því hvernig Á móti sól hafi orðið til segir Heimir að hljómsveitin hafi orðið til heima hjá honum á Selfossi haustið 1995 “ Það gerðist eiginlega óvart og við vorum ekki með neina drauma eða plön, nema bara að spila eitthvað skemmtilegt og hafa gaman að því. Svo gaf Skímó út plötu ´96 og þá ákváðum við bara að gera það líka. Smelltum okkur í djúpu laugina og gáfum út plötu 1997. Hún var alls ekki góð, en hún lagði grunninn. Þannig að þetta er allt Skímó strákunum að þakka.“

Miklu meira en spenntir fyrir Vínylplötu

Hljómsveitin hefur því verið starfrækt í 28 ár nú í haust og eru nú með 9. plötuna í smíðum. „Já við ákváðum að gefa loksins út vinyl, við erum ekki til á því formi þannig að við erum spenntir. Miklu meira en spenntir. Þetta er fyrsta platan okkar síðan 2009 og hún er bara alveg helvíti góð!“ Segir Magni.

Strákunum er ýmislegt til lista lagt. „Þórir lærði á skemmtara hjá Heimi Guðmunds, hann býr ennþá að því. Svo átti hann trommusett á Birkivöllunum, en enga kjuða þannig að hann notaði skrúfjárn. En hann getur spilað á flest sem gefur frá sér hljóð. Og Magni líka. Við hinir erum einhæfari,“ segir Heimir. „Mér skilst á strákunum að ég og Stebbi höfum verið yngstir þegar við náðum smá tökum á hljóðfærum, Stebbi er langskólagenginn í músik eins og heyrist vel en ég er að mestu sjálflærður,“ bætir Magni við.

Íslandsmet í fjölda skólastjóra

„Heimir samdi lag til konunnar sinnar þar sem hann segist vilja eiga miklu fleiri mínútur með henni og réði sig síðan sem skólastjóra í Stykkishólmi! Sævar er skólastjóri í Hveragerði og ég á tónlistarskóla á Akureyri þannig að það eru eiginlega 3 skólastjórar í bandinu sem er líklega Íslandsmet. Stebbi kennir á trommur og Þórir sér um að allir sem koma í Byko á Selfossi fari ennþá glaðari út,“ segir Magni.

Yfir 500 flugferðir á 8 árum

En skapar þessi fjarlægð engar hindranir? „Þegar Magni flutti á Akureyri fyrir mörgum árum hélt maður kannski að þetta myndi fjara út hjá okkur. En svo er hann alltaf fyrir sunnan að spila eitthvað þannig að við hittumst ekkert mikið sjaldnar en þegar hann bjó í bænum,“ segir Heimir. „Já, ég byrjaði ekki að telja flugferðirnar fyrr en í maí 2015 og ég er kominn yfir 500 síðan þá þannig að já, ég er töluvert hérna fyrir sunnan! Þetta hefði skapað vandamál fyrstu árin þegar við vorum að spila miklu meira og þvælast út um allt land. En núna breytir þetta litlu,“ bætir Magni við.

„Elsku Hemmi“

Aðspurðir um eftirminnilegustu giggin á sunnlenskri grundu sammælast strákarnir um að þau séu nokkur, en segja að giggin með Hemma Gunn og Ragga á Útlaganum á Flúðum standi uppúr. „Útlaginn var einstakur staður og Raggi og Hemmi algjörlega yndislegir. Við urðum góðir vinir Hemma og gerðum mikið með honum út um allt, við höfum það til dæmis fyrir sið að minnast Hemma áður en við förum á svið. Tökum hringinn og köllum hátt og snjallt Hemmi Gunn. Elsku Hemmi,“ segja þeir angurværir.

Líklega eina hljómsveitin sem hefur flogið með Fokker frá Keflavík til Reykjavíkur

Það að þurfa að þvælast um landið þvert og endilangt getur eflaust reynst þrautinni þyngra, þá sérstaklega þegar landið sem um ræðir er okkar ylhýra Ísland með öllum sínum hæðum og lægðum. Blaðamanni lá forvitni á að vita hvernig íslenskt veðurfar hefði unnið gegn þeim á ferlinum. „Við erum líklega eina hljómsveitin á Íslandi sem hefur flogið með Fokker frá Keflavík til Reykjavíkur (5 mínútna flug!) Það er partur af langri sorgarsögu sem endaði þannig að ballgestir á Egilsstöðum voru komnir í hús á undan hljómsveitinni. En við komumst þó á endanum, í brjáluðu veðri. Seinna sama ár flugum við af stað á Egilsstaði í hríðarbyl en vorum himinsælir þegar við komum austur og sáum auða flugbraut sem við héldum að við værum að fara að lenda á. En þá ákvað flugstjórinn að snúa við. Seinna fréttum við að hann hefði vel getað lent en það hefði verið tvísýnt hvort hann hefði komist til baka. Það var ansi súrt,“ segir Heimir.

Lúnir og þreyttir eftir að hafa komist nálægt gjaldþroti

En er þetta alltaf jafn gaman? „Nei nei! Eða jú, núna er þetta alveg ofboðslega gaman og hefur verið það mest allan tímann. Enda erum við allir mjög góðir vinir. Það kom smá súrt tímabil hjá okkur eftir að við gáfum út síðustu plötu. Við vorum búnir að selja 4 plötur í röð í gull eða meira og vorum orðnir aðeins of góðir með okkur. Gerðum rándýra plötu sem seldist síðan ekkert. Til að bæta gráu ofan á svart kom bankahrun og útgáfufyrirtækið sem við höfðum rekið síðan 2004 varð mjög nálægt því að verða gjaldþrota. Það fór allur spilapeningur í það og menn voru eðlilega orðnir lúnir og pínu þreyttir hver á öðrum. Við ákváðum að fara í smá frí þá, líklega í janúar 2009, en það entist ekki nema í 2-3 mánuði,“ segir Heimir.

Hlakka til að spila á heimavelli

Strákarnir segjast vera „vandræðalega spenntir“ fyrir því að spila á Sviðinu. „Við spiluðum þar rétt eftir að það opnaði, en það gigg var sveitaball með Pöpunum. Við kannski misskildum aðeins pælinguna með húsinu þá. Sviðið er frábær tónleikastaður og við hlökkum mikið til að spila lögin okkar og segja sögur af Þóri okkar. Við getum lofað frábæru kvöldi. Við erum í góðu spilaformi þó einhverjir séu með smá bumbu og allir annaðhvort sköllóttir eða gráhærðir! Við tökum öll okkar vinsælustu lög og segjum kannski 1-2 sögur. Við erum fyrst og fremst komnir til að skemmta okkur og ykkur. Hlökkum mikið til að spila loksins á heimavellinum hans Þóris. Og okkar. Hér byrjaði þetta allt,“ segja þeir að lokum.

Fleiri myndbönd