-9.8 C
Selfoss

Hrekkjavakan á Selfossi – allt sem þú þarft að vita

Á morgun, laugardag, verður hrekkjavökuratleikur á Selfossi og á þriðjudaginn 31. október, á hrekkjavökunni sjálfri, ganga börn á milli húsa og safna góðgæti eða svokallað „grikk eða gott“.

„Ratleikurinn er í hrekkjavökuþema og þarf að lesa vísur, leysa gátur og finna vísbendingar til að komast á endastöð. Við hvetjum foreldra til að fara með börnunum og gera þetta að fjölskylduskemmtun. Set, Heimaland fasteignasala, Lindex, Jáverk, GK Bakarí, Prentmet Oddi, ÞH blikk og Pylsuvagninn Selfossi eru styrktaraðilarnir sem gerðu okkur kleift að bjóða uppá glaðning á endastöð,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir sem staðið hefur að gerð ratleiksins undanfarin ár.

Öll sem klára ratleikinn geta skráð sig í pott og unnið vinninga frá Motivo verzlun, SHAY Verslun og Litlu Garðbúðinni. Að auki verður myndakassi frá Glansmyndir – Myndakassar  á lokastöðinni og viljum við hvetjaalla þátttakendur til að vera í búningum í ratleiknum og taka hræðilega mynd á endastöðinni!

Ratleikurinn ætti að vera kominn upp um kl 13.00 og verður tekinn niður um klukkan 21.00. Fyrsta stöð er við Hafnartún (Bláa húsið bakvið miðbæinn, við miðbæjargarðinn og Kirkjuveg).

Til að taka þátt í happadrættinu þarf að hafa með sér skriffæri til að skrifa á blað gegnum ratleikinn sem er um 2 km og er miðað við að hann sé farinn gangandi.

Fleiri myndbönd