-1.1 C
Selfoss

Bækur sem endurspegla litróf lífsins höfða til mín

…segir lestrarhesturinn Guðbjörg Arnardóttir.

Guðbjörg Arnardóttir er fædd og uppalin á Selfossi. Hún bjó um tíma með fjölskyldu sinni í Odda á Rangárvöllum en búa núna á Selfossi þar sem hún starfar sem prestur í Árborgarprestakalli.  Auk þess að njóta lesturs góðra bóka hefur hún gaman af því að prjóna.  Hún nýtur þess að eyða tíma með fjölskyldu og vinum, vera úti í náttúrunni, fara út að hjóla eða ganga um skóglendi.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er núna að lesa bók sem heitir Rangur staður, rangur tími og er einhvers konar spennusaga, þetta er saga sem ég hefði aldrei valið mér sjálf en fékk hana í bókaklúbbi sem er ég er í. Mér finnst inn á milli gaman að fá sendar bækur sem mér dytti ekki í hug að velja sjálf.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ætli ég myndi ekki segja að fagurbókmenntir höfði mest til mín. Bækur sem segja góða sögu, eru fallega skrifaðar og endurspegla litróf lífsins. Sögur um hvað það er bæði flókið en dásamlegt að vera manneskja og lýsa ólíkum tengslum og samskiptum á milli persóna bókanna. Ég hef líka frá því að ég man eftir mér verið hrifin af ljóðum og les enn nokkuð af ljóðum. Spennu- eða glæpasögur höfða síst til mín og les ég lítið sem ekkert af þannig bókum, þó alltaf eina og eina inn á milli. Ég verð svo auðvitað að nefna þá bók sem ég hef lesið spjaldanna á milli í mörg, bók sem ég kíki í á næstum hverjum degi og alltaf finn ég eitthvað í henni sem ég hef ekki komið auga á áður. Það er auðvitað bók bókanna, Biblían eða upp á grísku Biblios sem þýðir í raun bókasafn.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Ég var svo heppin að vera alin upp við að lesið var fyrir mig og bækur hafa alltaf verið hluti af mínu lífi. Ég fékk iðulega bækur að gjöf á jólum og afmælum, það var alltaf nóg að lesa heima og svo fór ég reglulega í bókasafnið. Ég hafði gaman af því að lesa klassísk ævintýri og er H.C. Andersen þar í miklu uppáhaldi. Ég man líka eftir því að hafa skoðað aftur og aftur bækur sem voru með fallegum myndum eins og fræðibækur. Ég las nýjustu unglingabækurnar sem gefnar voru út og endurspegluðu tíðaranda þess tíma. Þegar ég var í 10. bekk áttum við að lesa bókina Eins og hafið eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur og skrifa kjörbókarritgerð. Sú bók markar líklega skilin þar sem ég hætti að lesa unglingabækur og finn nákvæmlega hvernig fullorðinsbækur mig langaði að lesa. Eins og hafið greip mig eins og ekkert annað hafði gert áður og ég les hana reglulega í gegnum árin. Ætli það sé ekki mín uppáhaldsbók.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég er alltaf með bók á náttborðinu og les fyrir svefninn, mér verður nú miságengt því oft tekur svefninn yfir áður en ég kemst nokkuð áfram. Best finnst mér að vakna á frídögum og lesa uppi í rúmi í góðan tíma áður en ég fer á fætur. Ef bókin er góð þá á ég það til að grípa í hana þegar ég á lausa stund. Svo er það nýjasta venjan, Storytel, sem ég er farin að nýta mér og allt í einu verða öll verk sem þarf að finna auðveldari og skemmtilegri með upplestri á góðri bók í eyrunum.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Ég á nokkra uppáhalds rithöfunda sem ég hef átt í gegnum árin og reyni að lesa flestar þær bækur sem þessir höfundar gefa út. Vil fyrst nefna Jón Kalmann Stefánsson, það er alltaf eitthvað í bókunum hans og hvernig hann skrifar sem snertir mig. Ég les flest sem rithöfundarnir Auður Jónsdóttir, Guðrún Eva Mínevrudóttir, Gerður Kristný, Steinunn Sigurðardóttir, Kristín Marja Baldursdóttir, Ísak Harðarson og Stefán Máni gefa út. Þessa dagana bíð ég spennt eftir Bókatíðindunum og hlakka til að sjá það nýjasta sem er að koma út. Það er verst að ég fæ yfir mig löngun til að leggja allt lífið til hliðar og hverfa inn í lesturinn.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já það hefur alveg komið fyrir þó það gerist mun minna nú eða áður og man ég ekki hvaða bók rændi mig síðast svefni. Sömuleiðis kemur fyrir að þegar ég klára bók rétt fyrir svefninn þá sef ég laust því hugurinn er að melta bókina sem læðist inn í draumana og undirmeðvitundina.

En að lokum Guðbjörg, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég hef nú alltaf látið mig dreyma um að gefa út ljóðabók. Ég samdi meira af ljóðum á mínum yngri árum þó eitt og eitt læðist á blað enn í dag. Á seinni árum fæ ég útrás fyrir þörfina til að skrifa með því að semja og þýða bænir sem oft eru með ljóðrænum blæ.

Fleiri myndbönd