7.3 C
Selfoss

Fjórir unglingar réðust á átta ára dreng á Selfossi

Síðdegis á laugardag réðust fjórir unglingar á 8 ára dreng sem var á leið heim til sín frá vini. Faðir drengsins, Elí Kristberg Hilmarsson, setti færslu inn á Facebookhópinn Íbúar á Selfossi, þar sem hann óskaði eftir vitnum að árásinni. Lögreglu hefur verið gert viðvart.

Árásin átti sér stað við róluvöllinn hjá Gráhellu á Selfossi um klukkan 19:50 á laugardag og voru árásarmennirnir að sögn drengsins allir pólskumælandi og í kringum 15-16 ára gamlir. Tveir þeirra voru klæddir í gráar peysur, einn í rauðri og annar í svartri.

Að sögn Elís var drengurinn á gangi við róluvöllinn þegar hann sá fjóra unglinga á vappinu í kringum rólóinn. Klukkan hafi verið að ganga átta og það hafi verið orðið dimmt. Hann segir einn unglinganna hafa bent á hann og sagt eitthvað á pólsku, sem hann skildi ekki, áður en þeir æddu á móti honum. Drengurinn hafi þá frosið og þeir veist að honum, einn hafi rifið í hettuna á úlpunni hans, annar tekið í hann og hrint honum áður en þeir hófu að sparka ítrekað í bak, fót, síðu og víðar, en drengurinn er með töluverða áverka eftir árásina.

Írena Bylgja Einarsdóttir, móðir drengsins, segir í samtali við DFS að enn hafi ekkert komið í ljós við leitina að árásarmönnunum en að drengurinn sé furðu brattur miðað við aðstæður.

Fleiri myndbönd