-6.6 C
Selfoss

Getum sofið róleg í þúsund ár

Með bættu eftirliti og rannsóknum geta sunnlendingar sofið rólegir

Þau Hannes og Bryndís Ragnarsdóttir boðuðu til fundar í Íslenska bænum í Austur-Meðalholtum í Flóa á laugardaginn var. Þar flutti erindi Ragnar Stefánsson eða Ragnar Skjálfti eins og margir nefna hann.  Ragnar er mestur sérfræðingur í Jarð-skjálftafræðum. Ragnar var að kynna bók sína Hvenær kemur SÁ STÓRI? Árni Hjartarson mestur sérfræðingur í Þjórsárhrauninu flutti erindi um hraunið sem var og er stærsta hraun sem runnið hefur í einu gosi eftir ísöld. Þjórsárhraunið rann ofan af Veiðivatnasvæðinu niður Landsveit, Skeiðin og til sjávar Stjörnusteinar voru kenndir við hraungrítið og allir kannast við skerin utan Stokkseyrar og Eyrarbakka. Árni sagði þegar hann var spurður hvort við ættum von á öðru slíku gosi. „Að við gætum sofið róleg í tíu þúsund ár.“

Ragnar fór yfir hina stóru jarðskjálfta þegar jörð hefur skolfið hér í hundruðir ára. Bók sína byggir Ragnar á 20 ára rannsóknarvinnu um  jarðskjálftaspá en margar af niðurstöðunum eru líka góður grunnur fyrir eldgosaspá. Úrlausn jarðskjálfta og eldgosa er að mörgu leyti mjög sambærilegt og byggir á broti jarðskorpunnar undir á lagi frá flekaskriði og innri vökvaþrýstingi og samspili þessara tveggja ferla. Ragnar segir að lifa með náttúrunni, jafnt gæðum hennar sem dyntum, er grunnurinn að þekkingarleit manneskjunnar. Meðal hinna óskiljanlegu dynta hennar voru jarðskjálftar sem stundum voru skýrðir með því að skrímsli væru að bylta sér neðanjarðar. Erindi þeirra Ragnar og Árna voru tvær kennslustundir í jarðvísindum og þeir sem sóttu fundinn sátu opinmynntir og áhugasamir allan tímann. Bókin Sá Stóri ætti að vera opin til fróðleiks á hverju stofuborði hér á jarðskjálftasvæðinu. Ragnar opnaði á sínum tíma nýja umræðu og upplýsingar um jarðskjálfta og „afhræðsluvæddi“ sunnlendinga. Hvatti þá til að efla þekkingu sína og búa sig undir hamfarirnar. Eyfellingar eiga rokið og eru þjóðþekktir hvar sem þeir búa fyrir að negla í hverja báru og hnykkja. Við gerum meiri kröfur til bygginga húsa hér og að festa húsmuni. Hafið heila þökk Árni og Ragnar fyrir þessa góðu stund í Íslenska bænum.

Guðni Ágústsson

Fleiri myndbönd