-10.3 C
Selfoss

Fjölda skóla lokað vegna Kvennaverkfalls

Vinsælast

Kallarðu þetta jafnrétti?

Fjöldi skóla og leikskóla á Suðurlandi hafa sent frá sér tilkynningar þess efnis að skólastarf falli niður eða skerðist verulega næstkomandi þriðjudag, en boðað hefur verið til allsherjar kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október nk, þar sem konur og kvár eru hvött til að leggja niður öll störf, bæði launuð og ólaunuð. Yfirskrift verkfallsins í ár er Kallarðu þetta jafnrétti? Og er meginþegmað kynbundið og kynferðislegt ofbeldi gegn konum og kynsegin fólki sem og kerfisbundið vanmat á störfum kvenna. Er þetta í fyrsta sinn síðan 1985 sem verkfallið er boðað í heilan dag.

Í ár eru liðin 48 ár frá fyrsta kvennafrídeginum en fyrsta kvennafríið fór fram þann 24. október árið 1975. Þá lögðu 90% íslenskra kvenna niður störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Þær vildu mótmæla og vekja athygli á launamisrétti, vanmati á störfum kvenna, skorti á virðingu og valdaleysi kvenna. Hjól atvinnulífsins, og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag. Fundurinn vakti athygli um allan heim og sýndi að samstaða er sterkasta vopnið. Í þetta í fyrsta sinn síðan árið 1985 sem verkfallið er boðað í heilan dag.

Á þriðjudaginn hefur verið boðað til baráttufundar á Arnarhóli í Reykjavík klukkan 14:00, sem og samstöðufunda víðsvegar um landið, þar á meðal í Vík. Stéttarfélögin FOSS og Báran bjóða öllum konum og kvárum upp á sætaferðir frá Selfossi á baráttufundinn í Reykjavík gegn skráningu á foss@foss.bsrb.is eða baran@baran.is fyrir kl 8:00 á mánudagsmorgun, þó ber að hafa í huga að sætafjöldi er takmarkaður.

„Þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið. Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir fram á sláandi tölur um misrétti og ofbeldi, en viðbrögðin eru lítil sem engin. Við sem samfélag virðumst orðin samdauna stöðunni og teljum að jafnrétti komi með tímanum — jafnvel þó vitað sé að það muni a.m.k. taka heila ævi,“ segir á www.kvennafri.is, en þar má að auki fá svör við algengum spurningum sem brenna á fólki.

„Þótt mikið hafi áunnist frá árinu 1975 hefur ekki verið orðið við megin kröfu Kvennafrís: Að störf kvenna séu metin að verðleikum. Atvinnutekjur kvenna eru enn 21% lægri en karla og hefðbundin kvennastörf eru talsvert verr launuð en karlastörf. Konur sem starfa við ræstingar, umönnun og menntun barna, þjónustu við veikt fólk, fólks með fötlun og aldraðra eru á einna lægstu launum í íslensku samfélagi. Þá birtist kerfisbundið misrétti í því að 40% kvenna hafa orðið fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, að trans fólk, þ.m.t. kvár, konur með fötlun og konur af erlendum uppruna verða fyrir meira ofbeldi en aðrir hópar,“ segir í færslu frá Kennarasambandi Íslands, sem er meðal fjölmargra samtaka sem boða til verkfallsins.

Nýjar fréttir