-3.2 C
Selfoss

Rúmar fjórar milljónir söfnuðust í Bleika boðinu

Vinsælast

Krabbameinsfélag Árnessýslu hélt hinn árlega fjáröflunarviðburð, Bleika Boðið föstudaginn 6.október sl. á Hótel Selfossi. Veitingar voru í boði Tómasar Þóroddsonar veitingamanns, fordrykkur frá Vífilfell, gjafapokar frá Lindex voru fyrir fyrstu hundað konurnar og fyrstu fimmtíu karlmennirnir fengu einnig gjafapoka með gjöfum frá ýmsum verslunum. Húsfyllir var á Hótelinu og voru skipuleggjendur sammála um að virkilega vel hafi heppnast til.

Var þetta í fimmta sinn sem Bleika Boðið var haldið en viðburðurinn hefur fest sig í sessi sem einn helsti fjáröflunarliður félagsins. Fjáröflunin snýr að sölu happdrættismiða þar sem fjöldi fyrirtækja, verslana og listamanna hafa gefið vinninga og var hver vinningurinn öðrum glæsilegri. Einnig er venjan að bjóða upp skartgripi sem verslunin Karl úrsmiður gefur, hótelgistingar og málverk eftir þekkta íslenska listmálara. Vert er að taka fram að listamenn kvöldsins, sem að þessu sinni voru Elísa Dagmar söngkona, Ebba Sig leikkona og uppistandari, Gunnar Ólason söngvari og Leifur Viðarsson bassaleikari gáfu öll vinnu sína til félagsins. Gabríel Werner sá um veislustjórn og skilaði því verkefni einkar vel frá sér.

Svanhildur Ólafsdóttir, formaður félagsins segir það vera einstakt að búa í samfélagi þar sem slík samstaða og samhugur ríkir um málefni sem snertir okkur öll á einn eða annan hátt. það gefur starfsemi félagsins byr undir báða vængi að finna fyrir slíkum stuðningi eins og sést í Bleika Boðinu, þar sem allir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum, koma saman, gleðjast og njóta samverunnar á góðri kvöldstund. Bleika Boðið verður ekki að veruleika nema með hjálp fjölmargra aðila og vill félagið færa Hótel Selfoss sérstakar þakkir fyrir að hýsa viðburðinn félaginu að kostnaðarlausu.

Upphæðinni, rúmum fjórum milljónum sem safnaðist þetta kvöld verður varið í áframhaldandi uppbyggingu á fjölbreyttri þjónustu við einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Félagið er eingöngu rekið af styrkjum og framlögum einstaklinga og fyrirtækja og upphæð sem þessi veitir tækifæri til að efla starfsemina enn frekar og styðja enn betur við fólk sem er eða hefur tekist á við krabbamein.

Krabbameinsfélag Árnessýslu þakkar öllum þeim fjölmörgu einstaklingum og fyrirtækjum sem veittu aðstoð og styrki til að viðburðurinn gæti orðið að veruleika. Öllum þeim rúmlega fjögur hundruð gestum Bleika Boðsins eru einnig færðar bestu þakkir fyrir samveruna og þeirra framlag til félagsins.

Sjáumst að ári í Bleika Boðinu.

Krabbameinsfélag Árnessýslu

Nýjar fréttir