-8.2 C
Selfoss

Ekki nógu lyginn til að skrifa skáldsögur

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Eiríkur St. Eiríksson

Hann er aðfluttur Sunnlendingur. Hefur verið með annan fótinn á Selfossi og síðan Stokkkseyri síðan 2009. Bjó á Hellu í tæp fimm ár en fluttist í vor til Stokkseyrar. Eiríkur St. Eiríksson er blaðamaður og fagnar síðar á þessu ári að komast í hóp eldri borgara.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég get tæpast talist lestrarhestur í dag en ég fylgist vel með. Síðustu bækur, sem ég keypti, voru Tugthúsið eftir Hauk Má Helgason og Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Báðar vöktu áhuga minn en eru ólesnar. Tugthúsið, sem nú er Stjórnarráðið, á sér merkilega sögu og einhvern veginn fann ég á mér að Snerting væri bók til að lesa. Síðasta bók, sem ég las, var Pálssaga I eftir föður Ólafs Jóhanns og nafna. Það eru fyrstu tvö bindin, Gangvirkið og Seiður og hélog, í þríleik um ástandið í Reykjavík á hernámsárunum. Það þriðja, Drekar og smáfuglar, á ég eftir að lesa.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Það eru helst spennusögur og bækur sem segja frá lífsbaráttunni á framandi slóðum. Grænland er nærtækasta dæmið og mér finnst bók danska rithöfundarins Kim Leine um Spámennina í Botnleysufirði, sem er fyrsta bindið í þríleik, mögnuð lesning. Íslenskar háskasögur geta líka verið ágætar, ekki síst ef þær lýsa staðháttum.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Ég varð snemma læs en ég minnist þess ekki að það hafi verið lesið fyrir mig. Ég er alinn upp í Goðheimunum og ein mín mesta gæfa í lífinu er að föðurafi minn og -amma bjuggu á neðri hæðinni. Þau voru bæði úr Skagafirði. Þar var ég heimagangur og í raun voru þau mínir aðrir foreldrar. Þau sögðu mér sögur, sem ýmist voru skáldaðar eða sannar, og sá fróðleikur sem ég nam af þeim hefur fylgt mér alla ævi. Það var örstutt í Sólheimabókasafnið þar sem Ingibjörg réð ríkjum. 10-11 ára gamall var ég búinn að lesa allar bækurnar fyrir börn og unglinga, nema stelpubækurnar, og því ekki annað að gera en að ráðast á fullorðinsbækurnar. Mig minnir að ég hafi byrjað á Kristmanni Guðmundssyni. Sjálfur sankaði ég að mér bókum og Prins Valíant, Tom Swift, Percival Keene, Sandhóla-Pétur og Jón miðskipsmaður voru mínir menn. Af höfundum komst Jack London fljótlega í uppáhald.

Segðu frá lestrarvenjum þínum.

Lestrarvenjur mínar í dag eru þær að ég les lítið. Kaupi gjarnan athyglisverðar bækur á bókamarkaðinum, sem nú er í kjallara Laugardalsvallar, eða í búðum með það markmiði að lesa þær við fyrsta tækifæri. Þau tækifæri hafa sennilega verið af skornum skammti hvað mig varðar. Sennilega heitir þetta leti á þokkalegri íslensku. Hins vegar er ég hraðlæs og ef ég byrja á bók legg ég hana ekki frá mér fyrr en við sögulok. Þá á ég við bækur sem eru innan við 400 síður. Langlokurnar hef ég líka lesið en þá í tveimur lotum.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Af einstökum höfundum, sem ég held upp á, má fyrstan nefna Laxnes og af heldur yngri íslenskum höfundum standa Ólafur Gunnarsson, Jón Kalman Stefánsson, Einar Kárason, Einar Már Guðmundsson og Hallgrímur Helgason upp úr. Reyndar eru þetta allt stútungskarlar, eins og ég, en ég er ekki dómbær á þá ungu höfunda sem vakið hafa athygli. Af erlendum höfundum þá man ég að Camus hafði sterk áhrif á mig. Margir aðrir skrifuðu góðar bækur en líka slæmar. Í dag les ég aðallega glæpasögur og á þeim vettvangi stendur Norðmaðurinn Jo Nesbö upp úr. Daninn Abel Olsen er athyglisverður og ég kaupi allar bækur sem þessir tveir skrifa. Stephen King getur sömuleiðis verið ótrúlegur. Því miður hef ég leiðst út í að lesa verksmiðjuframleiðslu Lee Child um Jack Reacher og ráp hans. Að sumu leyti minna þessar bókmenntir á Morgan Kane og þar áður Basil fursta. Froða sem sennilega þarf að vera til á hverjum tíma. Af íslenskum gæpasagnahöfundum er ég hrifnastur af Stefáni Mána og sérstaklega ef söguhetjan er Hörður Grímsson. Af einhverjum ástæðum eru breyskir menn í uppáhaldi hjá mér og Hörður Grímsson minnir að sumu leyti á sögupersónuna Harry Hole sem Nesbö skapaði. Ég er hrifinn af sumu sem Arnaldur og Yrsa hafa dregið upp en miðað við síðustu bók Ragnars Jónassonar hefur sá maður aldrei gengið til rjúpna. Menn eiga ekki að skrifa um það sem þeir hafa ekki vit á.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Það er ef til vill ofsagt að bók hafi rænt mig svefni því yfirleitt les ég bókina í einni lotu. Sú bók, sem hefur haft ein dýpstu áhrif á mig, er En mann (sem væntanlega heitir Maður á íslensku) eftir ítölsku blaðakonuna Oriönu Fallaci. Sú bók er mögnuð.

En að lokum Eiríkur, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég hef verið blaðamaður í 45 ár og skrifað sjö bækur. Stangaveiðihandbækurnar fjórar munu lifa mig og gott betur. Ég er ekki nógu lyginn til að skrifa skáldsögur nema fyrir yngri börn. Ég er byrjaður á einni en framtíðin verður að skera úr um hvort ég nenni að klára hana og halda áfram. Að öðru leyti hugsa ég mest um varðveislu gamalla minninga og minja þessa dagana.

Nýjar fréttir