3.4 C
Selfoss

Opið fyrir umsóknir í öflugt matvælanám í FSu

Vakinn er athygli á nýju og kraftmiklu námi í matvæla- og ferðagreinum í FSu. Um er að ræða heildstætt brautarnám með nýrri og öflugri aðstöðu í kennslueldhúsi skólans. Námið er 70 einingar og námstími tvær til þrjár annir. Það er ætlað þeim sem stefna að vinnu við ferðaþjónustu eða frekara námi í matvælagreinum eins og matreiðslu, matartækni, bakstri, framreiðslu og kjötiðn. Nemendur fá starfskynningu í ferða- og matvælagreinum á vinnustöðum og fara í vinnustaðanám 18 – 24 klst. á önn.

Dóróthea Knútsdóttir framkvæmdarstjóri Friðheima og nemendur. Ljósmynd: Aðsend.

Að sögn Guðríðar Egilsdóttur sem stýrir náminu ríkir þar fjölbreytni og lifandi sköpun. Lögð er áhersla á að tvinna saman matreiðslu og matvinnslu við ferðaiðnað og frumframleiðslu á sunnlensku gæðahráefni. „Við búum í héraði þar sem fjölbreytni ríkir og þróun í framleiðslu kjöts, fisks, grænmetis og ávaxta og ekki síst kryddjurta” segir Gurrý kampakát. „Undirstöðuatriði matvinnslu eins og flökun fisks, úrbeinun kjöts og ræktun matjurta, meðferð þeirra og geymsla er kennd af fagfólki, brauðbakstur og kökugerð. Farið er til berja og sultur gerðar og uppsetningar á matardiskum til hversdags og hátíðarbrigða æfðar.”

Bjarki Hilmarsson í nýju eldhúsi Hótels Geysis. Ljósmynd: Aðsend.

Vettvangsferðir hafa verið ótaldar á þessari haustönn um sveitir og þéttbýli Suðurlands. Frumframleiðendur eru þá sóttir heim, iðnaðareldhús og ylrækt skoðuð, veitingastaðir og hótel. Gunnbjarnarholt í Hreppum þar sem eitt stærsta róbótafjós landsins er rekið og framleidd Hreppamjólk auk Flúðasveppa sem reka sveppa veitingahús og búa yfir mestri reynslu í innlendri sveppaframleiðslu. Friðheimar í Biskupstungum þar sem nýsköpun gerði afgangstómata að einum vinsælasta veitingastað landsins. Efsti-Dalur þar sem fjós, hlaða og veitingastaður mynda þríeyki. Hótel Geysir sem státar af einu fullkomnasta veitingaeldhúsi landsins, fulltrúar ferða- og byggðamála voru sóttir heim auk kjötvinnslu Krónunnar á Selfossi og nýja Kjötbúrsins sem Fannar Ólafsson rekur við miklar vinsældir á Selfossi.

Fannar Ólafsson og starfslið hans í Kjötbúrinu á Selfossi. Ljósmynd: Aðsend.

„Mikilvægi þess að hafa fagmennsku og skapandi hugsun í fyrirrúmi þegar kemur að rekstri matvælafyrirtækja á Suðurlandi verður aldrei ofmetið” segir Gurrý og bætir við að það sé algjört leiðarstef á matvælabraut í FSu. Opið er fyrir umsóknir nýrra nemenda á komandi vorönn en valdagur í skólanum er 18. október. Auk þess er áhugasömum bent á að hafa samband við Guðríði Egilsdóttur í gegnum gudriduregils@fs.is

jöz.

Fleiri myndbönd