-9.8 C
Selfoss

Glæpamenn, fræg bæjarhús og fornleifar

Vinsælast

Menningarmánuðurinn október

Þrjá sunnudaga í röð eru fyrirlestrar á vegum Byggðasafns Árnesinga haldnir í Varðveisluhúsinu Búðarstíg 22 á Eyrarbakka. Þrír fræðingar hver á sínu sviði mæta og gleðja gesti með fróðleik. Umfjöllunarefnin eru af ýmsum toga, glæpamenn, fræg bæjarhús og fornleifar. Fyrstur til að stíga á stokk var Jón M. Ívarsson sagnfræðingur með fyrirlesturinn Glæpamenn í Flóanum sem hann flutti síðastliðinn sunnudag fyrir þéttsetnum sal.

Jón sagði frá hinu sögufræga Kambsráni og fór svo ítarlega yfir sögur af fjársvikurum sem fóru um Flóann snemma á síðustu öld. Það mál var gjarnan nefnt Gaulverjabæjarmálið og var umfjöllunarefni Jóns í bókinni Í skugga Gaulverjabæjar sem kom út í fyrra. Fólk kunni sannarlega að meta stundina og sköpuðust líflegar umræður eftir fyrirlestur.

Næsta sunnudag þann 15. október mun  Snorri Tómasson hagfræðingur fræða gesti um Rútsstaða-Suðurkot æskuheimili Ásgríms Jónssonar listamálara. Í fyrirlestri sínum Skyggnst um í Rútsstaðahverfi í Flóa mun hann fjalla um fjölskyldu Ásgríms og feril en einnig um rannsókn á húsaskipan í Suðurkoti út frá samtíma uppskriftum. Til samanburðar verður málverk Ásgríms af Rútsstöðum árið 1956 og teikning af innri skipan þess bæjar.  Sérstaklega verður fjallað um feril málverks af Suðurkoti í eigu Snorra.

Fornleifafræðingurinn Ragnheiður Gló Gylfadóttir rekur svo lestina með fyrirlestrinum Fornleifauppgröftur á Vesturbúðarhól sunnudaginn 22. október.  Vesturbúðarhóll er hluti af merkilegri þyrpingu minjastaða á Eyrarbakka og bera sögu þorpsins sem aðalverslunarstaðar Suðurlands í rúmar tvær aldir vitni. Frá árinu 2017 hafa staðið yfir fornleifarannsóknir á Vesturbúðarhólnum en áður en rannsóknir hófust mátti sjá óljós ummerki bygginga á nokkrum stöðum. Í fyrirlestrinum verður farið yfir rannsóknina, fyrstu niðurstöður og næstu skref.

Dagskráin hefst ávallt kl. 14.00 og fer fram í fyrirlestrasal í Varðveisluhúsi safnsins á Búðarstíg 22 á Eyrarbakka.

Viðburðirnir eru opnir öllum, enginn aðgangseyrir og heitt á könnunni!

Nýjar fréttir