11.7 C
Selfoss

Fjölbreyttur Forvarnardagur í Árborg

Vinsælast

Forvarnardagurinn haldinn hátíðlegur í Sveitarfélaginu Árborg í gær og stóð forvarnarhópur Árborgar fyrir glæsilegri dagskrá eins og undanfarin ár. Á forvarnardaginn var öllum 9. bekkingum grunnskólanna í Árborg boðið upp á sameiginlega dagskrá sem unnin var í samstarfi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES), Sunnulækjarskóla, Vallaskóla, Umf. Selfoss og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz.

Dagskráin hófst með setningu á Hótel Selfoss þar sem Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson deildarstjóri frístundarþjónustu ávarpaði nemendur og Magnús Bjarki Þórlindsson, betur þekktur sem Maggi BMX kom og hvatti nemendur til að lifa heilbrigðu lífi, vera samkvæm sjálfum sér og taka ábyrgð. Nemendur hlýddu á ávarp frá forseta Íslands og í framhaldinu var þeim svo skipt upp í hópa, þvert á skóla þar sem þeir fóru á milli stöðva sem allar höfðu mikið og gott forvarnargildi.

Nemendur fengu fræðslu frá Lögreglunni um ofbeldi, sakhæfi og umferðaröryggi. Í ungmennahúsinu fengu þau fræðslu um mörk og samþykki og í félagsmiðstöðinni Zelsíuz var unnið með klípusögur um mörk, samþykki og samskipti. Björgunarsveit Árborgar var með kynningu á starfseminni sinni og Umf. Selfoss var með kynningu á Taekwondo. Einnig fóru nemendurnir í hópefli og unnu í umræðuhópum þar sem þau svöruðu meðal annars spurningum tengdum samveru, heilbrigðu lífi og félagsþrýsting. Að lokinni dagskrá var nemendum boðið upp á grillaðar pylsur við Tíbrá.

Dagurinn gekk vel í alla staði og vill forvarnarhópurinn koma á framfæri þakklæti til starfsmanna og allra þeirra sem stóðu að deginum með þeim.

Fyrir hönd forvarnarhópsins,

Ellý Tómasdóttir,
forstöðumaður frístundahúsa
og forvarnarfulltrúi

Nýjar fréttir