1.1 C
Selfoss

Loka vegum vegna afleits ferðaveðurs á morgun

Lögreglan á Suðurlandi hefur gefið út tilkynningu vegna lokana í ljósi gulra og appelsínugulra veðurviðvarana sem Veðurstofa Íslands hefur gefið út fyrir Suður- og Suðausturland á morgun. Verður veginum milli Víkur og Markarfljóts lokað kl. 9:00 í fyrramálið og veginum á milli Hafnar og Freysness klukkan 11:00.

Á morgun hefur gul viðvörun verið gefin út fyrir Suðurland frá 8:00 vegna norðvestan 15-23 m/s með snörpum vindkviðum við fjöll, hvassast undir Eyjafjöllum. Á milli klukkan 11:00-14:00 verður gul viðvörun í gildi á Suðausturlandi vegna norðvestan storms 18-25 m/s með vindhviðum yfir 35 m/s og varasamt ferðaveður.

Frá kl. 14:00 þann 10. okt til kl. 11:00 þann 11. okt verður viðvörunin appelsínugul og búist er við norðvestan stormi 20-28 m/s, hvassast austantil og geta vindhviður farið yfir 40 m/s. Ekkert ferðaveður.

Ferðalöngum er bent á að fylgjast grannt með á vef vegagerðarinnar þar sem frekari upplýsingar um fyrirhugaðar lokanir verða birtar. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni utandyra til að forðast foktjón, auk þess sem varað er við akstri ökutækja sem eru viðkvæm fyrir vindi.

Fleiri myndbönd