-3.4 C
Selfoss

Undirbúa framkvæmdir við Árböðin í Laugarási

Vinsælast

Fyrirtækið Mannverk er nú í óðaönn við undirbúning á framkvæmdum við nýtt baðlón, Árböðin, sem reisa á við bakka Hvítár í Laugarási í Bláskógabyggð. Áætlað er að framkvæmdir hefjist fljótlega eftir næstu áramót.

„Við vorum svo heppnir árið 2015 að komast yfir einstaka lóð á þessum frábæra stað, sem býður upp á fjölda tækifæra í umhverfi sem er ríkt af fegurð, jarðvarma og metnaði fyrir ýmis konar ræktun sem og ferðaþjónustu. Mikill metnaður er fyrir því að Árböðin verði glæsileg og upplifun gesta góð, en við hönnun lónsins var sérstök áhersla lögð á að um fjölbreytta upplifun gesta yrði að ræða, sem byði upp á margþætta upplifun, hvort sem væri í formri heitra eða kaldra baðsvæða, gufubaðs, slökunarrýma eða veitinga,“ segir Hjalti Gylfason, framkvæmdastjóri Mannverks.

Hjalti bætir við að á lóðinni sé að auki heimild fyrir hótelbyggingu og ráðgera eigendur að fara í þá uppbyggingu í kjölfar uppbyggingu lónsins. Hann segir það einnig vera von þeirra að uppbyggingin dragi að fleiri fyrirtæki í Laugarás, ásamt því að byggja frekar undir þá starfsemi sem þegar er í þorpinu.

Mynd: Tölvu­teikn­ing/​Mann­verk.

T.Ark arkitektar sjá um arkitektúrinn og Efla verkfræðistofa sér um verkfræðihönnun. Segir hjalti að báðir aðilar hafi viðtæka þekkingu og reynslu af sambærilegum verkefnum og að útkoman sé eftir því.

Í texta frá arkitekt verkefnisins segir að Árböðin séu hönnuð til að kalla fram, í heildrænni upplifun, það besta sem Suðurland getur boðið upp á;  hveralaugar, víðáttumikið útsýni, matvælaframleiðslu, jökulár og blá fjöll í fjarska.

„Laugarás er augljóst staður fyrir böðin, með gnægð af heitu vatni og hefð fyrir ræktun í gróðurhúsum. Laugarás situr á mörkum Hvítár, nærri gullna hringnum og Skálholti. Staðsetning sem dregur fram sögu og náttúrugæði Suðurlands frábærlega. Árböðin sitja á landi sem hallar mjúklega í átt að Hvítá, með víðfermt útsýni upp í hálendi í fjarska, en Vörðufell og Hvítá í nærumhverfinu. Upplifun laugagesta byggist á röð útsýnis- og upplifunarstaða. Öðru megin við böðin má finna grýtta greniskóga, en hinumegin enda þau í grösugum túnum, sem gerir gestum kleift að upplifa fjölbreytta laugarupplifun frá íhuglum skógarlundum til opinna votlenda.“

Mynd: Tölvu­teikn­ing/​Mann­verk.

„Arkitektúr þjónustuhússins situr á mörkum jarðmótunar og tjalds, og kallar fram íslenskar álfasögur, en í raun og veru er þetta nútímaarkitektúr, sprottinn úr blöndu af hellum Kelta á Suðurlandi og nútíma byggingatækni. Niðurstaðan er nútímaleg og björt aðstaða, sem kallast á við sögu svæðisins. En efnisleg áhersla verður lögð á sjálfbærar íslenskar skógarafurðir úr nágrenninu.“

„Ólíkt öðrum laugaupplifunum á Íslandi, munu Árböðin nýta sér frábær veðurskilyrði á staðnum og matarmenningu svæðisins til að bjóða gestum sínum upp á upplifun til lengri eða skemmri dvalar sem er til þess fallin að tengjast náttúruaðstæðum og staðbundinni menningu suðurlandsundirlendisins.“

Nýjar fréttir