1.7 C
Selfoss

Gerir heiminn betri með rófufræjum

Vinsælast

Sandvíkurrófan er grænmeti sem flestir íslendingar ættu að kannast við. Fjóla Signý Hannesdóttir úr Stóru-Sandvík, hefur tekið það að sér, allt að því ein síns liðs, að viðhalda sjálfbærni Íslenska gulrófustofnsins, en hún er sú eina hér á landi sem ræktar rófufræ til sölu.

Fjóla Signý er sem fyrr segir, sveitastelpa frá Stóru-Sandvík. Fjóla er yngst fimm systkina, hefur alltaf unað sér best í sveitinni og segir blaðamanni Dagskrárinnar að hún sé hæstánægð með að vera loksins flutt aftur heim í Sandvík, eftir að hafa aðeins kannað aðra möguleika samhliða skóla, íþróttum og vinnu. „Ég er nú búin að byggja mitt eigið hús í Stóru-Sandvík og bý þar með manninum mínum, Jóni Steinari Sandholt, og tveimur dætrum okkar, Árdísi Lóu og Lilju Magneu. Sveitin er þó aðeins áhugamál, en aðal starfið mitt er í Reykjavík. Þar rek ég heildverslun og verslunina Fætur toga, sem flytur inn og selur íþróttavörur. Dæmi um vörumerki sem ég er með umboð fyrir eru Brooks, Fusion, Oofos ofl. Rófuræktunin er áhugamál sem ég þyrfti að vera mjög stórtæk í til þess að eiga möguleika á að hafa það fyrir lífsviðurværi,“ segir Fjóla í samtali við Dagskrána.

Fjóla Signý á heimavelli. Ljósmynd: Aðsend.

Ekkert rófufræ ræktað í ár

„Það ættu allir að reyna að gera heiminn betri með því að vera til og gera eitthvað fyrir samfélagið. Mitt framlag er rófufræsræktun. Með því að rækta rófufræ fyrir bændur á Íslandi, viðheld ég sjálfbærni Íslands í rófurækt. Hinsvegar eru ákveðnar takmarkanir á því hvað ég hef mikinn tíma og pening til að gefa í þetta og í ár ræktaði ég til dæmis ekkert rófufræ. Bæði var ég önnum kafin og svo kramdist annað gróðurhúsið undir snjó síðasta vetur og ég á enn eftir að laga það. Síðasta uppskera var góð en mér þykir líklegt að Sandvíkurfræið verði uppselt næsta vor, en samkvæmt síðustu tölum sem ég heyrði eru um 1100 tonn af rófum ræktuð árlega sem passar miðað við framleiðsluna á rófufræjum sem ég sel til annarra bænda,“ bætir Fjóla við.

Hannes Jóhannsson stofnaði fyrirtækið Skálpur árið 1979. Hannes lést nú í sumar. Ljósmynd: Aðsend.

Fjóla og pabbi hennar, Hannes Jóhannsson áttu saman fyrirtækið Skálpur slf. sem hefur sérhæft sig í gulrófnarækt til matar og ræktunar á rófnafræi. Hannes lést núna í júlí og því er hún ein að halda áfram hans ævistarfi. Hannes nam við Garðyrkjuskóla ríkisins og útskrifaðist þaðan sem garðyrkjufræðingur árið 1972.  Hann stundaði ræktun matjurta í áratugi og ræktun gulrófna allt frá árinu 1970 og hafði því mikla reynslu á því sviði. Fyrirtækið Skálpur var stofnað árið 1979 en Fjóla hefur, sem fyrr segir, tekið við rekstri fyrirtækisins.

Viðskiptafræðin varð Skálpi til framdráttar

Fjóla hefur frá blautu barnsbeini tekið þátt í öllum sveitastörfum. „Þegar ég byrjaði í háskólanum 2009, fór ég að læra viðskiptafræði. Þar voru ýmis verkefni og ég tók alltaf Skálp, rófufyrirtækið, fyrir og gerði greiningu. Ég kom með ýmsar leiðir til að bæta reksturinn og bæta skipulagið. Pabbi var farinn að vera lélegur og þurfti alltaf meiri og meiri stuðning. Við systkinin komum svo öll inn í þetta þegar pabbi gat lítið unnið, svo duttu bræður mínir út og síðast Jóhanna systir. Þetta endaði með því að ég var sú eina sem hafði áhuga á þessu og hélt áfram,“ bætir Fjóla við.

Allir kátir við rófuskurðinn. Ljósmynd: Aðsend.

Rófurnar í Sandvík eru allar teknar upp með handafli. „Ég er ekki með marga hektara og það var að reynast mun betur að taka upp með höndunum, við létum reyna á vélar en rófurnar skemmdust mikið við þær aðfarir. En helsta hindrunin var að það var ekki hægt að fara með upptökuvél út í garð ef það var rigning eða búið að rigna mikið sem er oft raunin á haustin. Einnig kom fyrir að vélin bilaði og þá voru allir sendir heim. Það hefur gengið mun hraðar og reynst betri nýting að taka upp með hönunum. Það er lika svo skemmtileg stemning þegar það mæta margir og rífandi gangur í fólki. Það er hollt fyrir alla að fara aðeins út og róta í moldinni. Við notum hinsvegar vél við sáningu, sáningarvél sem er dregin áfram af traktor og  aðra þreskivél til að þreskja fræið. Árið 2021 var staðan þannig að vélinni, sem áður var notuð til þreskingar, hafði verið komið fyrir á safni á Hvanneyri. En það var þá sem ég komst að því að það var enginn að rækta fræ til sölu á Íslandi nema ég. Ég brá því á það ráð að fjárfesta í þreksivél frá Austurríki. Uppskeran er í kringum 100 pokar af fræi á ári, sem gefur um 18kg af rófufræi. Það væri ekki mögulegt að gera það í höndunum,“ segir Fjóla, en á skemmtilegri Instagramsíðu Skálps sýnir Fjóla allt um það hvernig fræin eru þreskjuð, auk þess sem hún fræðir fylgjendur sína um rófur, uppskriftir og fleira.

Sigurdór Örn Guðmundsson og Jóhanna, systir Fjólu eru dugleg að hjálpa til við uppskeruna. Ljósmynd: Aðsend.

Öllum velkomið að vera með

Fjóla þiggur alla hjálp sem hún getur fengið við uppskeruna, enda er þetta framtakssama áhugamál ekki smátt í sniðum. „Ég auglýsi alltaf eftir fólki í upptöku. Það er öllum velkomið að vera með og ekki er gerð nein krafa um að vera allan tímann. Það hefur aukist mikið að fjölskyldur séu að koma í 1-2 klst, taka upp rófur og fá rófur með sér heim að launum. En ég hef einnig verið að borga smá laun fyrir þau sem vilja koma og vinna sér inn smá auka pening.  Við kláruðum að taka allt upp um síðustu helgi, en uppskeran í ár var 32 sekkir, eða 24 tonn, sem er vel yfir meðallagi, þrátt fyrir að sumarið hafi verið þurrt, ég hafi sáð seint og minna en oft áður. Ég tók loforð af pabba áður en hann dó um að hann yrði áfram með mér í rófunum og við systurnar erum handvissar um að þessi ríkulega uppskera sé honum að þakka.“

Lárus Henrý Árnason gat ekki beðið eftir að smakka rófurnar og nældi sér í eina splunkunýja. Ljósmynd: Sunnlenska.is/Jóhanna S. Hannesdóttir.

Mæta úr borginni í sveitastörf

Fjóla segir að upphaflega hafi það aðallega verið fjölskyldan sem hjálpaði til. „Það eru vissulega ennþá frændur og frænkur sem koma og við erum svo þakklát öllum sem koma og leggja hönd á plóg, pabbi var líka alltaf svo þakklátur öllum sem komu og hjálpuðu okkur í upptökunni, við gætum ekki gert þetta án þeirra hjálpar. Nú er farin að myndast skemmtileg stemning með fleira fólki sem kemur frá Selfossi eða jafnvel Reykjavík sem langar að fá að komast í smá sveitstörf. Krakkar úr sveitinni hafa verið dugleg að hjálpa mér, margir komið frá Eyði-Sandvík. Jóhanna systir hefur komið og verið dugleg að auglýsa fyrir mig. Bragi Fyolf hjálpar mikið en hann er sjálfur með rófur og hann fær að geyma rófur í mínum kæli að launum fyrir hjálp í vor- og haustverkum.“

Oddur Sigurðsson ásamt vini sínum frá Texas. Vinurinn fékk í ferð til Íslands í afmælisgjöf og Oddur tók hann að sjálfsögðu með sér í rófuupptöku. Vinurinn var hæstánægður að komast í rófuupptöku í Sandvík. Oddur var í sveit í Sandvík þegar hann var lítill. Hann flutti aftur til Íslands fyrir 2 árum og kemur nú árlega í rófuupptöku – enda einstök stemning í rófugarðinum. Ljósmynd: Sunnlenska.is/Jóhanna S. Hannesdóttir.

Fjóla segir það skemmtilegasta í ferlinu vera að sjá fræið/rófurnar vaxa. „Svo er það góð útrás að vinna í sveitinni. Hreinsar hugann og brýtur upp vikuna frá daglegu amstri þar sem launaða vinnan mín er mest í tölvu.  Það er líka mjög gaman þegar margir mæta í garðinn eins og ég minntist á áðan, þá gengur vel að taka upp, tónlist og skemmtileg stemming. Það er alveg æðislegt. Maður sefur vel eftir slíkan vinnudag.

„Ég ætla að koma og gera frétt“

Mörg skemmtileg atvik eiga sér stað á uppskerudögum í Sandvík. „Það var skemmtileg tilviljun í fyrra þegar við vorum í miklu stuði í garðinum og Sigga Jó frænka segir: „Nú vantar bara Magnús Hlyn til að gera frétt úr rófugarðinum.“ Og það stóð ekki á því að Magnús Hlynur hringir í mig um það bil fimm mínútum síðar, eins og hann hefði heyrt í Siggu. Hann spurði hvort við værum að taka upp rófur og sagðist ætla að koma og gera frétt,“ segir Fjóla og hlær.

Vinnufólk á öllum aldri. Ljósmynd: DFS.is/Árni Reynir Óskarsson.

En hvernig hefur þróunin verið á þeim árum sem Fjóla hefur verið í rófubransanum? „Þeir sem rækta rófu hafa flestir stækkað við sig. Í dag eru færri að rækta og þeir rækta þeim mun meira. Mér finnst einnig vera smá kynslóða-uppfærsla og ég hef t.d. fengið tæki lánuð frá Sævari í Arabæ. Hann er með mun stærri ræktun en ég. Hann á því tæki og tól sem ég get ekki fjárfest sjálf í og fæ lánað 1x á ári hjá honum til að einfalda vinnuna. Mér finnst rófubændur vera lítið samfélag og ef það er beðið um aðstoð eða ráð eru menn tilbúnir að hjálpa eins og hægt er.“

Gömul mynd úr rófuupptöku. Hannes hóf rófurækt í Sandvík árið 1970. Ljósmynd: Aðsend.

Hvaða ráð myndi Fjóla gefa fólki sem gæti haft áhuga á því að prófa sig áfram í rófurækt? „Það er mikilvægt að hafa gaman af þessu því þetta er mikil vinna. Það er best að plægja garðinn á haustin. Það er líka mikilvægt að kynna sér hvaða skilyrði rófan þarf til að vaxa; jarðvegur/áburður og svo má ekki gleyma að það þarf að nota kálfflugudúk, (eða eitra) en annars skemmist uppskeran því allt verður maðkétið.

Við báðum Fjólu um hennar uppáhalds rófu-uppskrift til að deila með lesendum, nú þegar aðgengi að glænýjum Sandvíkurrófum er á hvers manns færi í næstu matvöruverslun. „Það er ekkert betra en að fá sér nýjar ferskar rófur á haustin. Það er í mestu uppáhaldi hjá mér, en ég bjó einu sinni til rófupizzubotn sem mér finnst æðislegur og skal glöð deila uppskriftinni að honum með ykkur,“

Rófupizzubotn Fjólu

Kostirnir við þennan botn að mínu mati eru að hann er:

  • Hollur
  • Glútenlaus
  • Sykurlaus
  • Næringarríkur
  • Hrikalega bragðgóður
  • Þéttur í sér svo það er hægt að halda á pizzusneiðinni, hann verður ekki of þunnur og molnar ekki.

Innihaldið er:

  • 1 lítil Sandvíkurrófa rifin niður og safinn kreistur úr (eftir að það var búið að kreista safann úr vó það 142gr. hjá mér)
  • 1/2 Bolli chia fræ
  • 1/2 Bolli möndlur
  • 1/2 Bolli haframjöl
  • 1-2 msk af oregano kryddi
  • 1/3 Bolli rifinn parmesan ostur
  • 3 hvítlauksrif
  • 3 msk olía
  • 3 dl. rifinn ostur
  • 1 egg
  • 3 kúfullar msk. Maísmjöl
  • 2 tsk. hvítlaukssalt

Aðferð

  1. Hita ofninn í 180°C með blæstri
  2. Setja chia fræin, möndlurnar, haframjölið og oregano saman í blandara/matvinnsluvél og maukið saman.
  3. Flysja rófuna, rífa hana niður og að lokum kreista allan safann úr.
  4. Blanda saman rófunni (sem er búið að kreista) og maukinu úr blandaranum
  5. Bæta restinni við og hræra svo þetta blandist vel saman
  6. Setja blönduna á bökunarplötu með smjörpappír og hnoða þetta enn betur saman og að lokum pressa það niður og dreifa úr því. Þessi uppskrift fyllir heila plötu með ca. 1 cm botni. Ég notaði bara hendurnar til að pressa og dreifa úr. Það væri hægt að leggja smjörpappír ofan á og fletja það þannig út með höndum eða kökukefli.
  7. Baka í 15 mín, taka botninn út og snúa honum við. Leggur smjör pappír ofan á og bökunarplötu og snýrð við. Bakar í 5 mín til viðbótar.
  8. Setur allt uppáhalds áleggið þitt á pizzuna og bakar í 10 mín til viðbótar.

Verði þér að góðu og njóttu! 

Nýjar fréttir