-1.6 C
Selfoss

Litla Hryllingsbúðin frumsýnd á föstudag

Vinsælast

Föstudaginn 6. október frumsýnir Leikfélag Hveragerðis söngleikinn vinsæla um Litlu Hryllingsbúðina. Litla Hryllingsbúðin er sígildur söngleikur, fullur af húmor, góðri tónlist, heillandi persónum og krassandi söguþræði. Baldur Snær þrælar alla daga í blómabúð Markúsar á Skítþró og dreymir um ástir Auðar, en hún er í tygjum við leðurklæddan tannlækni með kvalarlosta. Dag einn uppgötvar Baldur dularfulla plöntu sem á eftir að breyta lífi hans.

Söngleikurinn var upphaflega frumsýndur á Broadway árið 1982 og var sýndur samfleytt í 5 ár. Árið 1986 var gerð kvikmynd byggð á söngleiknum sem náði miklum vinsældum. Leikritið var frumflutt á Íslandi árið 1985 og hefur verið sett upp í þrígang hjá atvinnuleikhúsum ásamt því sem nokkur áhugaleikfélög hafa spreytt sig á verkinu. Höfundur er Howard Ashman en Alan Menken samdi tónlistina. Íslenska þýðingu gerði snillingurinn Gísli Rúnar Jónsson og hinn eini sanni Megas þýddi bundið mál. Leikstjóri er Jóel Sæmundsson.

Leikfélagi Hveragerðis þótti rökrétt að setja upp þetta verk sem gerist að mestu í blómabúð og fjallar um illgjarna plöntu, enda er Hveragerði þekkt sem blómabærinn. Átta leikarar fara með fjölmörg hlutverk í sýningunni en alls koma um 20 manns að uppfærslunni.

Frumsýning verður sem fyrr segir föstudaginn 6. október. Miðasala er á TIX.is og nánari upplýsingar er að finna á síðu Leikfélags Hveragerðis á Facebook. Sýningar hefjast kl. 19.30 og er sýnt í Leikhúsinu Austurmörk 23.

Nýjar fréttir