Fjölskylduskátar Fossbúa hafa nú verið starfræktir í rúmt ár. Fjölskyldurnar hafa upplifað ýmis ævintýri í náttúrunni. Þau fóru til dæmis upp á topp Knarrarósvita á ísköldum vetrardegi, blotnuðu í lappirnar í Fuglafriðlandinu í Flóa, gerðu vísindatilraunir, lærðu að umgangast varðeld, sungu skátalög og fóru í óteljandi leiki. Á næsta fundi, 7.október, verður farið í ratleik um Hellisskóg.
Hvað eru Fjölskylduskátar?
Fjölskylduskátar Fossbúa hittast reglulega og eiga saman ævintýralegar stundir í náttúrunni. Verkefnin og leikirnir eru miðuð að börnum á aldrinum 3-9 ára með stuðningi fjölskyldumeðlima. Það skemmtilegasta við Fjölskylduskáta er að hér koma fjölskyldur saman og taka virkan þátt í öllu sem skátarnir taka sér fyrir hendur.
Hverjir geta tekið þátt?
Þú þarft ekki að hafa neina reynslu af skátastarfi til að mæta. Í Skátafélaginu Fossbúum er fjölbreyttur hópur fjölskylduskáta. Þangað hafa til dæmis mætt mæðgur, stóra- og litlafrænka, tvö foreldri með eitt barn, eitt foreldri með þrjú börn, afi og amma með barnabörn og svo mætti lengi telja. Eldri og yngri systkini koma líka oft með og hafa gaman af starfinu á sinn hátt. Það er pláss fyrir öll í Fossbúum!
Ævintýri, náttúra og samvera
Markmiðið með starfinu er útivist, samverustundir fjölskyldunnar og sjálfstæði ungra barna. Krakkarnir þróa færni sína við að leysa þrautir, hreyfa sig í náttúrulegu umhverfi og æfa samskipti við fólk á breiðum aldri. Á fundum læra fjölskyldumeðlimir ekki síst að treysta á getu barnanna til að prófa sig áfram, gera mistök og læra af þeim Yfirskrift fjölskylduskáta á Íslandi er: Ævintýri, náttúra og samvera.
Alltaf úti (næstum)
Skátafundir Fossbúa hefjast alltaf við Skátaheimilið Glaðheima, Tryggvagötu 36, Selfossi. Dagskráin fer nánast alltaf fram utandyra. Það er nauðsynlegt að koma vel klædd og það á líka við um fullorðna fólkið. Oftast nýtum við nærumhverfið en stundum sameinumst við í bíla og förum í fjöruna, skóginn eða á aðra staði í nágrenni Selfoss.
Taktu þátt!
Ef þú vilt prófa fjölskylduskáta skaltu grípa tækifærið og hitta okkur í Glaðheimum á laugardaginn 7.október klukkan 10:30. Þegar allir eru mættir keyrum við í Hellisskóg, förum í ratleik (og hver veit nema við grillum sykurpúða í hellinum). Fundirnir eru vanalega frá 10:30 til 12:00 einn laugardag í mánuði. Dagskrá haustsins má finna á facebook síðu Fossbúa.
Frekari upplýsingar veitir Vala Hauksdóttir, sveitarforingi Fjölskylduskáta Fossbúa í síma 8646002.