0.6 C
Selfoss

Áhugavert að sjá samfélagið í gegnum linsu bókmennta

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Karen Anna Björnsdóttir

Karen Anna Björnsdóttir er 27 ára gömul og er alin upp í Þorlákshöfn en býr nú á Selfossi með eiginkonu sinni. Um þessar mundir vinnur hún í fiskbúð hliðstætt skóla, en hún hefur alltaf verið með listina í fararbroddi og er fyrst og fremst myndlistarkona. Einnig semur hún tónlist og skrifar þegar henni gefst tími til. Karen er mikill tónlistarunnandi og hefur auk þess ávallt haft áhuga á bókmenntum. Hana hefur lengi dreymt um að gefa út sína eigin skáldsögu, þó að hennar helsti draumur sé að verða atvinnulistamaður.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Um þessar mundir er ég að lesa Do Androids Dream of Electric Sheep? eftir Philip K. Dick. Ég hef upp á síðkastið verið að sækja meira og meira í klassískar bókmenntir og er Do Androids Dream talin vera undanfari cyberpunk hreyfingarinnar, sem ég hef mikinn áhuga á. Einnig hef ég gaman af því að lesa bækur sem bíómyndir hafa verið byggðar á og varð ég fremur ástfangin af myndinni Blade Runner fyrr á þessu ári og vildi grafa dýpra í uppruna hennar.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég hef áhuga á alls konar skáldskap, en ber mikla ást til fantasíu, vísindaskáldskapar, hryllings- og gotneskra bókmennta. Ég hef einnig áhuga á þungum bókmenntum sem eru almennt þéttar og erfiðar í lestri. Mér finnst afar áhugavert að sjá samfélagið í gegnum linsu bókmennta þar sem það getur gefið innsýn inn í atburði sem voru að eiga sér stað þegar bókin var skrifuð og hvað höfundinum fannst um það. Í heildina vil ég lesa eins mikið af mismunandi bókum og ég get, en hjartað mun alltaf vafra aftur til fantasíustefnunnar.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Foreldrar mínir lásu oft fyrir mig þegar ég var barn. Ég lærði snemma að lesa og las rosalega mikið þegar ég var yngri. Áhugi minn á myndasögum kviknaði snemma með Andrésar Syrpunum og ég var fljótt heltekin af bókum eins og Harry Potter og Eragon seríunni. Ég man vel eftir því að hafa fengið Hringadróttinssögu lánaða frá föður vinkonu minnar þegar ég var um ellefu ára og var ekki lengi með þær, enda var ég límd við síður þriggja bókanna frá byrjun til enda.

Segðu frá lestrarvenjum þínum.

Ég hlusta frekar mikið á hljóðbækur þessa dagana, en reyni að stunda hefðbundin lestur þegar ég hef tíma til. Oftast þegar ég er að lesa á hefðbundin hátt er ég einnig með tónlist í eyrunum þar sem það hjálpar mér með einbeitingu. Það er mismunandi hversu lengi ég les í senn. Allt frá tíu mínútum upp í nokkra klukkutíma. Ég les ekki oft af pappír þessa dagana og nota símann minn mikið til þess að lesa á meðan ég er úti og tölvuna mína þegar ég er heima þar sem það er auðveldara að nálgast hlutina í rafrænu formi í dag. En það stoppar mig ekki frá því að vera með fullan bókaskáp af alls konar bókum.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Fyrir nokkrum árum las ég bókina Neuromancer eftir William Gibson og varð svo ástfangin af henni að ég las báðar framhaldsbækurnar í Sprawl þríleiknum og hefur Gibson náð festu sem uppáhaldshöfundurinn minn eftir það. Innihald sögunnar, undirtónar heimsins, persónurnar og þéttur ritstíll Gibson heillaði mig upp úr skónum. Ég hef það sem nokkurskonar óskrifað markmið að fá annað fólk til þess að lesa þessar bækur og mæli ávallt með því að fólk lesi að minnsta kosti fyrstu setninguna úr Neuromancer því hún er heillandi frá fyrstu síðu. 

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Algjörlega. Ég man að þegar ég las fyrstu Artemis Fowl bókina sem unglingur þá sleppti ég henni varla fyrr en ég var búin með hana. Þegar ég var yngri las ég oft fyrir svefninn og átti auðvelt með að tapa tímanum. Eins og með hverja góða sögu – hvort sem hún er bók eða ekki – þá á ég erfitt með að leggja hana frá sér þegar eitthvað spennandi gerist í henni, sama þó að maður þurfi að vakna snemma í fyrramálið.

En að lokum Karen, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég myndi vilja skrifa bækur sem fara bæði djúpt í að kanna persónur sínar og eru samfélagsgagnrýnar á einn eða annan hátt. Bækur eru auðvitað ein af bestu leiðum sem mannkynið hefur til þess að koma hugmyndum sínum til skila. Bókin sem mig dreymir um að gefa út er einmitt gagnrýni á öfgakapítalisma og neyslusamfélag á sama tíma og hún er spennandi ævintýri í gegnum framtíðarborg. Ég veit ekki alveg hvenær ég mun ná að gefa hana út en vonandi áður en ég verð orðin gömul og grá.

jöz.

______________________________________________________

Tillögur að skemmtilegum lestrarhestum berist á netfangið jonozur@gmail.com.

Nýjar fréttir