-3.2 C
Selfoss

Opnunarteiti Fröken Selfoss

Vinsælast

Boðið var til opnunarteitis á Fröken Selfoss, glæsilegum nýjum veitingastað í miðbæ Selfoss fyrr í kvöld, en staðurinn opnar formlega á morgun, föstudaginn 29. september.

Opnunin markar tímamót í miðbænum, en með henni er formleg starfsemi hafin í öllum verslunar- og þjónusturýmum í þessum fyrsta áfanga. Fröken Selfoss er staðsett á neðra Brúartorgi, við hlið Messans og gegnt Sviðinu.

Eigendur Fröken Selfoss eru nýbökuðu hjónin Árni Bergþór Hafdal Bjarnason og Guðný Sif Jóhannsdóttir, sem gengu í hnapphelduna um síðustu helgi. Árni og Guðný hafa komið af krafti inn í veitingasenuna á Selfossi undanfarin misseri, en þau reka meðal annars Samúelsson Matbar í Mjólkurbúinu og ísbúðina Groovís við Brúarstræti.

Stemningin á opnuninni var frábær á þessum gullfallega veitingastað sem hannaður var af Leifi Welding, en hann hefur hannað hefur fjölmarga veitingastaði, þeirra á meðal Apótekið, Grillmarkaðinn og Sushi Social í Reykjavík.

Staðurinn er einstakur á landshlutanum, en á Fröken Selfoss er sérstök áhersla lögð á fjöruga stemningu, fjölbreytta smárétti, áhugaverða framsetningu og frumlega kokteila sem ánægðir gestir gæddu sér á við góðar undirtektir í kvöld. Til að byrja með verður boðið upp á fjögurra og sjö rétta kynningarmatseðla á kynningarverði.

Meðfylgjandi myndir tók Helga Guðrún Lárusdóttir, blaðamaður DFS.is.

 Það með sanni segja að hér sé um að ræða glæsilega veitingaupplifun og kærkomna viðbót við veitingaflóru Sunnlendinga, eða eins og Árni orðaði það svo vel í ræðu sinni í opnunarteitinu; „Groovís fyrir fullorðna“.

Nýjar fréttir