0.6 C
Selfoss

Nýtt fangelsi kemur í stað Litla-Hrauns

Til stendur að reisa nýtt fangelsi, á lóð sem ríkið á, austan við Litla-Hraun. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var á Litla-Hrauni á mánudag.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að til standi að fjölga rýmum og endurskoða fullnustulög, en eftir ítarlega skoðun á aðstöðunni á Litla-Hrauni, sé niðurstaðan sú að nauðsynlegt sé að ráðast strax í undirbúning byggingar nýs fangelsis sem muni koma í staðinn fyrir aðstöðuna sem nú er á Litla-Hrauni. Áætlaður kostnaður við hið nýja fangelsi hleypur á um sjö milljörðum króna.

Rúmir tveir milljarðar úr ríkissjóði voru tryggðir til viðgerða á núverandi húsakosti Litla-Hrauns, en við nánari skoðun á húsinu hafi orðið ljóst að dýrara væri að gera við Litla-Hraun en að reisa nýtt fangelsi. Það er ekki ljóst hvort rífa eigi öll húsin.

„Aðbúnaður á Litla-Hrauni er enganveginn ásættanlegur og þá sérstaklega ekki fyrir fanga sem eru andlega veikir og glíma við aðra sjúkdóma. Í vissum tilfellum eru það menn sem ættu frekar að vera á sjúkrahúsi eða annarri stofnun, en eru í staðinn lokaðir inni á Litla-Hrauni mánuðum saman. Við náum ekki árangri með því að henda fólki á bak við stálhurð,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.

Guðrún segir að áhersla verði lögð á að reisa nútímalegt fangelsi sem tryggir öryggi bæði fanga og starfsfólks, ekki síst til að bæta aðstöðu fjölskyldna, þá sérstaklega barna. Hún segir að horft verði til uppbyggingarinnar á Hólmsheiði við gerð nýs fangelsis.

Fleiri myndbönd