Listakonan Ninný (Jónína Magnúsdóttir) hefur fært Krabbameinsfélagi Árnessýslu málverkið Innsti Kjarni að gjöf og verður það á uppboði í Gallerý ListaSel á Selfossi í október mánuði. Málverkið er unnið í olíu með dálítið grófri áferð. Þar leikur Ninný sér með litasamsetningu og form. Ninný þykir mikilvægt að við hugsum vel um innsta kjarnan í okkur og lýsir hún verkinu á þennan hátt; „Hver ertu og hvað er best fyrir þig, hlúðu að þínum innri manni. Ef þú horfir á verkið þá sérðu að það er eins og kjarni og geislar út frá kjarnanum. Látum sálarljós okkar skína og ein besta tilvitnun sem ég vitna stundum í er Brostu framan í heiminn þá brosir heimurinn við þér. Ég veit að það getur verið erfitt þegar fólk er að ganga í gegnum erfiðleika, það hef ég sjálf reynt. En það hjálpar svo ótrúlega mikið að reyna að horfa á björtu hliðarnar og muna að líta inn á við og rækta sinn innri mann“.
Uppboðið stendur til 18.október og hæstbjóðanda afhent verkið á Bleika daginn, 20.október. Boð í verkið berast til Gallerý ListaSel að Brúarstræti 1 á Selfossi, eða á info@listasel.is
Ninný er menntuð frá Myndlista og handíðaskóla Íslands, sem nú er Listaháskóli Íslands. Ninný hefur auk þess sótt sér meiri menntun víðar í Danmörku, Ítalíu, Bandaríkjunum, Svíþjóð og á Spáni. Ninný kenndi myndlist um tíma, en hefur að mestu starfað sem sjálfstætt starfandi listamaður. Ninný sat í stjórn Norræna Vatnslitafélagsins í 6 ár sem fulltrúi Íslands en auk þess hefur hún tekið að sér ýmis verkefni tengd myndlist. Hún hélt Fri Akademi á Íslandi fyrir listamenn frá öðrum löndum, staðið fyrir námskeiðum með erlendum listamönnum og var í forsvari fyrir stórri vatnslitasýningu í Norræna húsinu, þar sem norrænir listamenn sýndu auk breskra listamanna. Ninný hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín og var valin listamaður Garðabæjar árið 2000. Ninný hefur haldið yfir tuttugu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og erlendis.
Ninný hefur gaman af fjölbreytni í verkum sínum og vinnur í ýmsa miðla, olíu, vatnsliti og blandaða tækni. Í verkunum finnst henni skipta máli litaflæðið, ljósið og andstæðurnar. Hún málar bæði fígúratív málverk og afstrakt og finnst gott að breyta um mótív. Náttúran hefur sterk áhrif á hana og stundum segja verkin einhverja sögu, sýna oft nánd við eina eða fleiri manneskjur. Ninný er ekki bundin af litavali, heldur teflir saman litum eins og tilfinningin segir henni. Sjá má verk eftir Ninnýju á eftirfarandi síðum: www.ninny.is, www.facebook.com/ninnyartist, www.instagram.com/ninnyartist.