-3.4 C
Selfoss

Staða og framtíð Óskalands

Vinsælast

Geir Sveinsson. Mynd/Hveragerðisbær

Þau ánægjulegu tíðindi bárust þann 7. september, að fyrirhuguð stækkun leikskólans í Óskalandi var sett í útboð.

Þetta eru frábærar fréttir og þá sérstaklega fyrir þá íbúa bæjarins sem bíða eftir fjölgun leikskólaplássa í Hveragerði.

Allt frá því að núverandi meirihluti tók við hefur verið unnið að styttingu biðlista leikskólabarna og hvernig hægt yrði að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum við nýjan 6 deilda leikskóla í Kambalandinu sem gert var ráð fyrir að yrði opnaður veturinn 2024-25. Sömuleiðis að finna lausn á þeim háa kostnaði sem kostnaðaráætlun þess leikskóla hljóðaði uppá eða um 1300 milljónir kr.

En einnig, samtímis fjölgun leikskóladeilda í Hveragerði þurfti að finna lausn á bágri aðstöðu starfsfólks Óskalands en fyrir lá tilboð í viðbyggingu uppá 250 milljónir kr. til þess að leysa það mál.

Fyrir sveitarfélag eins og Hveragerði er það heilmikið mál að ráðast í framkvæmdir sem þessar svo ekki sé minnst á aðrar fjárfrekar framkvæmdir sem bíða í sveitarfélaginu eins og stækkun grunnskólans, lausn á betri aðstöðu til íþróttaiðkunar eftir hvarf Hamarshallar og endurbóta á fráveitu bæjarins.

Því þarf stundum að leita nýrra lausna sem varð niðurstaðan og ákveðið var í desember sl. að reisa  annars konar  leikskóla í Kambalandinu, tilbúnar færanlegar einingar sem tæki mun skemmri tíma að reisa og allur kostnaður mun lægri.

En fljótlega á þessu ári, eftir yfirlegu hvernig leysa mætti á sama tíma aðstöðumál Óskalands, var tekin sú ákvörðun að slá nokkrar flugur í einu höggi og fara í stækkun Óskalands og geyma Kambalandið til betri tíma.

Var því öll vinna sett í gang að hanna stækkun Óskalands og á sama tíma að hanna bætta aðstöðu fyrir starfsfólkið og nú, rúmum 6 mánuðum síðar er þeirri vinnu lokið með útboði á stækkun leikskólans.

Um er að ræða fullbúna 4 deilda viðbyggingu, samtals 586 m2, sem tengd verður við leikskólann með 13 m2 tengibyggingu og mun stækkunin uppfylla allar reglugerðir um leikskólabyggingar

Útboðið stendur til 22.09. og í framhaldinu verður unnið úr þeim tilboðum sem berast og verður þeirri vinnu hraðað sem mest. Að því loknu verður gengið til samninga og er gert ráð fyrir að leikskólinn verði tilbúinn í byrjun mars 2024 eða tveimur mánuðum síðar en upphafleg plön í Kambalandinu gerðu ráð fyrir. Er það trú mín að það muni standast þó vissulega sé um einn óvissuþátt að ræða sem kallast veðurfar.

Eins og ég nefndi mun leikskólinn stækka um allt að 4 deildir auk þess sem öll aðstaða starfsfólks mun stórbatna sem eru góð tíðindi fyrir okkar frábæra starfsfólk á Óskalandi sem hefur mátt búa við þröngan kost. Er það von okkar að þessi stækkun muni fara mjög langt með að leysa biðlistavandamál bæjarins.

Í sumar var unnið í haginn hvað starfsmannaðstöðuna varðar og ýmis undirbúningsvinna unnin innan Óskalands sem auðvelda mun alla framkvæmd. Jarðvinnan hefur þegar verið boðin út og tilboð lægstbjóðenda samþykkt í bæjarráði.

Í fjárhagsáætlun fyrir þetta ár er gert ráð fyrir að heildarkostnaður bæjarins við framkvæmdina verði um 300 milljónir kr. og inn í þeirri tölu er bætt og betri starfsmannaaðstaða Óskalands. Um er að ræða færanlegar húseiningar til kaupréttarleigu.

Mig langar að þakka starfsfólki bæjarins kærlega fyrir flotta vinnu og að hafa náð að klára þessi mál á jafn skömmum tíma og raun ber vitni.

Geir Sveinsson,
Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar

Nýjar fréttir