-6.6 C
Selfoss

Íþróttaskemma í Hveragerði

Sigmar Karlsson, varafulltrúi D-listans í Hveragerði.

Allt frá því að Hamarshöllin í Hveragerði skemmdist í óveðri á síðasta ári hefur aðstaða til íþróttaiðkunar verið mjög ábótavant í bænum. Núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur ekki viljað endurreisa mannvirkið í þeirri mynd sem það var áður og hafa horft til annarra lausna hvað íþróttaaðstöðu varðar.

Nýjasta útspil meirihlutans er að taka á leigu iðnaðarskemmu og nota sem íþróttamannvirki. Skemman verður staðsett neðan við þjóðveg 1 á svæði sem er skilgreint sem athafnasvæði í skipulagi bæjarins og verður, samkvæmt meirihlutanum, tekin í notkun um næstu áramót.. Á skilgreindu athafnasvæði er óheimilt að reisa íþróttamannvirki. Þessa ákvörðun tók meirihlutinn á bæjarráðsfundi þann 10. ágúst síðastliðinn án þess að nokkur gögn lægju fyrir í málinu. Fulltrúi D-listans greiddi atkvæði á móti þessari tillögu þar sem engar forsendur voru fyrir hendi til þess að hægt væri að mynda sér skoðun á henni og þar fyrir utan blasir við að á tillögunni má finna ýmsa galla.

Engar upplýsingar um kostnað

Það liggur fyrir að þegar breyta á iðnaðarskemmu í íþróttamannvirki felur það í sér umtalsverðan kostnað. Meirihlutinn hefur ekki ennþá lagt fram nein gögn þar sem kemur fram hver sá kostnaður er. Einnig er það svolítið á reiki hver það er sem á að bera þann kostnað. Það liggur fyrir, samanber svör meirihlutans á bæjarstjórnarfundi þann 14. september síðastliðinn, að ekki er búið að semja um leiguverð á húsnæðinu þannig að fjárhagsleg óvissa fyrir Hveragerðisbæ er gríðarleg í þessu máli.

Iðnaðarskemma er ekki íþróttamannvirki

Það liggur ljóst fyrir að íþróttamannvirki eru mjög sérhæfðar byggingar. Í hönnun þeirra er sérstaklega hugað að þáttum eins og öryggi iðkenda, hljóðvist, loftræstingu, kyndingu og lýsingu svo unnt sé að nýta mannvirkin í þá starfsemi sem þeim er ætlað. Meirihlutinn hefur ekki getað svarað því hvernig þau hyggjast tryggja að hönnun skemmunnar sé með þeim hætti að hún komi til með að nýtast sem íþróttamannvirki. Hver man ekki eftir íþróttahúsinu við Gagnheiði á Selfossi? Viðlíka íþróttahús er einnig að finna á Stokkseyri. Í báðum tilfellum er um að ræða atvinnuhúsnæði sem breytt var í íþróttamannvirki. Þessi húsnæði voru og eru viðkomandi sveitarfélögum ekki til framdráttar.

Tímabundin ráðstöfun?

Það kemur skýrt fram í tillögu meirihlutans að þessi ráðstöfun er til bráðabirgða (3-5 ára). Bæjarfulltrúar D-listans setja stórt spurningarmerki við þær fyrirætlanir þar sem það liggur fyrir að fjárfestingin í þessu húsnæði er gríðarleg og það liggur í augum uppi að innviði byggingarinnar verður erfitt að endurnýta. Það verður að teljast hæpið að Hveragerðisbær sé tilbúinn að láta þessa fjárfestingu fjúka út í veður og vind eftir 3-5 ár.

Áhyggjur af öryggi notenda

Bæjarfulltrúar D-listans hafa miklar áhyggjur af öryggi barna sem munu koma til með að vera notendur skemmunnar. Það liggur fyrir að börnum verður ekið niður fyrir veg líkt og þegar þeim var ekið í Hamarshöllinna meðan hún stóð en það liggur einnig fyrir að mörg börn munu koma til með að ferðast niður fyrir veg gangandi, á reiðhjólum, á rafmagnsvespum eða hlaupahjólum. Hveragerðisbær yrði í samvinnu við Vegagerðina að kanna hvort og þá hvernig hægt sé að tryggja öryggi barna sem ferðast í skemmuna. Meirihlutinn hefur sagt varðandi öryggismál að það standi til að setja upp gangbraut yfir þjóðveg 1, þær fyrirætlanir eru órar og yrði beinlínis hættulegt fyrirkomulag.

Það hlýtur að vera öllum ljóst að þessar hugmyndir eru algjört glapræði hvort sem litið er til þess að staðsetningin sé fyrir neðan þjóðveg á skilgreindu athafnasvæði eða það að leigja íþróttahús til 3-5 ára með tilheyrandi kostnaði fyrir sveitarfélagið.

Eitt er víst að farsinn um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði heldur áfram undir leikstjórn Okkar Hveragerðis og Framsóknar.

Nýjar fréttir