-10.3 C
Selfoss

JÁverk kaupir 6 nýja rafmagnsbíla

Í síðustu viku tók JÁverk á móti 6 rafmagnsbílum frá Toyota á Selfossi, sem leysa eldri jarðefnaeldsneytisbíla af hólmi og er þar með búið að skipta út um 20% af bílaflota félagsins yfir í rafmagnsbíla. Áætlað er að með þessu muni draga úr kolefnislosun um u.þ.b. 40 tonn CO2 ígilda á ári. Er þetta skref í vegferð félagsins að því að minnka umhverfisspor sitt og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og er áætlað að skipta út enn fleiri bílum á næstunni.

„Orkuskipti bílaflotans eru ekki einu skrefin sem JÁverk er að taka í umhverfismálum. Á árinu 2022 fékk fyrirtækið vottun á Umhverfisstjórunarkerfi sínu samkvæmt ISO14001 staðlinum. JÁverk hefur nú þegar afhent fjölda Svansvottaðra bygginga og er handhafi Svansleyfis frá Umhverfisstofnun,“ segir Sigrún Melax, Sigrún Melax Gæða, öryggis og umhverfisstjóri JÁverk í samtali við DFS.is.

„JÁverk er nú með um 350 íbúðir á framkvæmdastigi sem allar eru byggðar í samræmi við kröfur Svansvottunar og stefnt er á að fái Svansvottun við verklok. Þar af eru 78 íbúðir með bílakjallara við Tryggvagötu á Selfossi, uppbygging á Tívolíreitnum í Hveragerði er hafin og á höfuðborgarsvæðinu eru framkvæmdir í Kópavogi og á Seltjarnarnesi,“ bætir Sigrún við.

„Undanfarin ár hefur JÁverk lagt mikla áherslu á flokka allan úrgang og stefnir félagið á að yfir 90% sorps frá félaginu sé flokkað. Þá er stórt verkefni hjá JÁverk að minnka úrgang frá byggingarframkvæmdum og endurnýta það sem mögulegt er,“ segir Sigrún að lokum.

Fleiri myndbönd