-8.2 C
Selfoss

Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Pjetur Hafstein Lárusson

Pjetur Hafstein Lárusson er ljóðskáld, smásagnahöfundur og ljóðaþýðandi. Auk þess hefur hann sent frá sér tvær samtalsbækur og hefur önnur þeirra, Fjallakúnstner segir frá, komið út þrisvar sinnum. Þar ræðir Pjetur við Stefán frá Möðrudal. Hann hefur auk þess birt fjölda viðtala, sérstaklega við gamalt fólk, í Morgunblaðinu og Sunnlenska fréttablaðinu. Þá liggja eftir hann nokkrir útvarpsþættir sem birst hafa í Ríkisútvarpinu, Rás 1, m.a. þrír þættir um samskipti bræðraþjóðanna Færeyinga og Íslendinga.  Frá árinu 1998 hefur Pjetur verið búsettur í Hveragerði.

Hvaða bók bók ertu að lesa núna?

Yfirleitt er ég með fleiri en eina bók í takinu hverju sinni. Nú er ég að lesa Vestanfórur eftir Finn Torfa Hjörleifsson, ágæta bók, þar sem endurminningar og ýmis hugðarefni höfundar eru til umfjöllunar. Þá er ég að hlusta á hljóðútgáfu þeirrar frábæru bókar, Að breyta fjalli, lesna af höfundinum, Stefáni Jónssyni fréttamanni.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Sagnfræðiverk, þjóðlegur fróðleikur og síðast en ekki síst ljóðabækur og þá aðallega 19. aldar skálda og formbyltingarskálda síðustu aldar, ekki síst þeirra Stefáns Harðar Grímssonar, Jóns Óskars, Jónasar Svafárs og Sigfúsar Daðasonar. Þá má ekki gleyma þeim, sem ruddu þeim brautina, Steini Steinarr og Jóni úr Vör. Austurlensk ljóð, sérstaklega kínversk frá Tang-tímabilinu eru mér einnig hugleikin og hef ég þýtt nokkuð úr þeim fjársjóði, aðallega úr norsku. Lí Pó er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Eins og fram kemur í skáldskap hans, var hann nokkuð fyrir sopann. Dauða hans bar að með þeim hætti, að hann var á báti úti á fljóti að næturlagi. Máninn speglaðist á öldum fljótsins og hugðist skáldið veiða hann upp úr vatninu.  Við þá tilraun féll hann útbyrðis og drukknaði. Það er erfitt að ímynda sér skáldlegri dauðdaga. Þá eru japönsku ljóðformin hækur og tönkur mér einnig kær.

Vonandi er það ekki bara sérviska mín, en mér nægir ekki innihald bóka til að meta gildi þeirra. Þannig get ég t.d. ekki notið lestrarefnis, sem prentað er á skjannahvítan pappír.  Prentlistin hefur þá sérstöðu meðal iðngreina, að teljast til lista, sé vel að verki staðið.  Það er vegna þess, að góð prentun ber með sér andblæ þess, sem prentað er.

Fékkstu lestraruppeldi sem barn?

Ég ólst upp hjá ömmu minni til tólf ára aldurs. Hún var ekki gefin fyrir bókina. Hins vegar var hún rótfastur Reykvíkingur og rakti ættir sínar þangað allt aftur til Innréttinga Skúla fógeta.  Gamla Reykjavík var henni hugleikið frásagnarefni. Þess naut ég. Móðir mín hélt hins vegar að mér ljóðum og sögum Jónasar Hallgrímssonar, enda þótt Grímur Thomsen væri hennar maður í hópi skálda. En hann átti hún fyrir sig. Svo naut ég þess, að vera tíður gestur hjá frænku minni, Sigríði Theódórsdóttur frá Bægisá og manni henna, Bjarna Friðrikssyni. Þau héldu að mér Íslendingaþáttum Tímans og Speglinum, því ágæta skopblaði. Svo lét Sigríður mig læra Gilsbakkaþulu utanbókar. Þetta var gott veganesti út í tilverunnar krókóttu stíga.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Ég er hæglæs en minnugur á það sem ég les. Bækur eru aldrei fjarri mér og ég gríp til þeirra nokkrum sinnum á degi hverjum.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Eðli málsins samkvæmt eru þeir nú ýmsir og á ólíkum sviðum ritaðs máls.  En ef ég ætti eftir að rata í þá ógæfu, að dæmast til að sitja pólitískan fund hvaða stjórnmálaflokks sem vera skal, mundi ég lauma með mér heildarsafni Steins Steinarrs, Kvæðasafni og greinum. Því miður eru Íslendingar á svo lágu menningarstigi nú um stundir, að greinar Steins og viðtölin við hann, eru ekki lengur gefin út með ljóðum hans. Það er skaði, því þótt hann hafi verið öndvegis ljóðskáld, verða greinar hans og viðtölin við hann, að teljast til sígildra bókmennta þjóðarinnar. En ef til vill hafa innanbúðarmenn Forlagsins ekki veitt þessu athygli. Þá vil ég geta þess, að ljóð Hannesar Péturssonar eru mér mjög kær, enda tel ég ekkert íslenskt ljóðskáld okkar tíma standa honum á sporði.

Hefur bók einhvern tíma rænt þig svefni?

Já, en það er mér að meinalausu, efni þeirra bóka fer þá bara inn í drauma mína, þegar svefninn verður vökunni yfirsterkari.

Að lokum Pjetur, hvernig lýsir þú verkum þínum sem rithöfundur?

Ég segi nú bara eins og Marteinn Lúther: Það sem ég hefi skrifað, það hef ég skrifað.

______________________________________________________

Tillögur að lestrarhestum sendist á jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir