-8.2 C
Selfoss

Grillað lambalæri með plómum, maís, sveppum og kartöflum

Vinsælast

Ragnar Örn Traustason er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég vil byrja á að þakka honum Tómasi vini mínum og frænda fyrir þessa áskorun. Við bjuggum vissulega saman í nokkur ár og þar sá ég hann aldrei elda neitt annað en hakk og spaghetti. Mér brá því mjög í brún þegar ég sá hann bjóða upp á uppskrift af þorsk hér í síðustu viku en um leið gladdi það mig þar sem hann kann þá allavega að elda tvo rétti.

Sjálfur reyni ég að grilla alla daga og rétturinn sem ég ætla bjóða upp á í dag er einfaldur og þægilegur og er svona týpískur mánudagsréttur hjá mér eftir erfiðan og langan vinnudag.

Grillað lambalæri:

Grilllæri sem búið er að marinera með íslenskum kryddjurtum.
Bökunarkartöflur
Ferskur maís
Plómur
Hunang
Piparostasósa
BBQ-sósa: Famous Dave Texas Dip

Dressing:
Sýrður rjómi
Fersk steinselja

Aðferð:

  1. Hitið grillið upp í miðlungs­hita og setjið lærið á það. Æskilegt er að kjötið sé við stofuhita þegar það fer á grillið.
  2. Snúið lærinu reglulega (á 15-20 mínútna fresti) uns kjarnhitinn er kominn upp í 65 gráður. Penslið reglulega með BBQ-sósu.
  3. Á sama tíma skal byrja að grilla kartöflurnar en gott er að forbaka þær í ofni þar sem þær þurfa töluvert langan tíma til að verða gegneldaðar.
  4. Hreinsið maísinn og sjóðið í nokkrar mínútur til að hann þurfi styttri tíma á grillinu. Setjið því næst á grillið.
  5. Hreinsið stilkinn og skafið innan úr sveppunum. Skerið ostinn í sneiðar og raðið inn í sveppinn.
  6. Skerið plómurnar í tvennt. Fjarlægið steininn og hellið hunangi yfir.
  7. Hitið sósuna upp í potti.
  8. Setjið maísinn, sveppina og plómurnar á grillið og grillið uns tilbúið.
  9. Takið af grillinu, gott er að láta kjötið hvíla um stund áður en það er borið fram en hér er öllum matnum raðað á eitt fat og borið fram þannig.

Afar einföld en algjörlega frábær máltíð.

Ég skora næst á vínbóndann og lífskúnsterinn Eirík Raphael Elvy stórvin minn. Hann hefur marga fjöruna sopið í eldamennsku og finnst mér líklegt að hann bjóði okkur upp á finnsk-íslenska fusion matargerð með kanadísku ívafi. Ég hef einnig búið með Eika og honum fannst alltaf mjög gott að borða og parar hann vín með öllum mögulegum og ómögulegum mat.

Nýjar fréttir