-10.5 C
Selfoss

„Söng í sama míkrófón og Prince söng Purple Rain“

Vinsælast

Arnar Jónsson er 38 ára fjölskyldufaðir, búsettur í Rangárþingi ytra ásamt eiginkonu sinni, Hólmfríði Samúelsdóttur, börnum þeirra tveimur, Ídu Maríu og Bastían og tveimur hundum. Arnar fór til Hollywood í ágúst, þar sem hann tók upp tónlist í einu sögufrægasta hljóðveri heims, Sunset Sound. Við heyrðum í Arnari, fengum að kynnast honum svolítið betur og heyra hvernig þetta kom allt til.

Kenndi sér að spila á gítarinn frá ömmu

„Við fluttum í sveitasæluna úr borgarbrjálæðinu fyrir fjórum árum. Ég er menntaður tæknifræðingur og hönnuður en tónlistin hefur alltaf verið mín stærsta ástríða. Sveitaloftið hefur klárlega jákvæð áhrif á sköpunarkraftinn minn,“ segir Arnar og andar að sér fersku sveitaloftinu. „Ég var mjög söngelskt barn, var í barnakór í Árbæjarskóla og tók þátt í hæfileikakeppnum með bæði leiklistar- og söngatriðum. Þegar ég var 13 ára gaf amma mér gítarinn sinn. Ég kenndi mér að spila á hann með hljómabók sem innihélt slagara á borð við Gamla Nóa, Bjarnastaðabeljurnar og hver man ekki eftir tímalausa slagaranum Gulur, Rauður, Grænn og Blár?,“ segir Arnar og hlær

Arnar og David í hljóðverinu Sunset Sounds. Þarna eru þeir innan um allar Gold/Platinum plöturnar sem teknar voru upp í studioinu. Ljósmynd: Aðsend.

Alinn upp á Motown- og diskótónlist

„Tónlistarferillinn hófst svo í Fjölbrautarskólanum við Ármúla þegar ég og fjórir félagar mínir stigum á svið í Söngvakeppni FÁ, sem Backstreet Boys. Árið eftir tók ég aftur þátt, bara einn og vann þá. Árið 2007 lá leiðin í strákasveitina Luxor. Síðan þá hef ég sungið í fjölda brúðkaupa, í jarðarförum, í Söngvakeppni Sjónvarpsins og við ýmis tilefni. Mamma mín ól mig upp á Motown- og diskótónlist þannig ég hlustaði mikið (og geri enn) á The Temptations, Jackson 5, BeeGee´s. Á mínum eldri árum hlusta ég mikið á Michael Bublé og John Mayer,“bætir Arnar við.

Ekkert annað í stöðunni en að fara „All-in“

En hvernig endaði fjölskyldufaðir úr sunnlenskri sveit í Hollywood í upptökum? „Ég kynntist manni að nafni David Kershenbaum í gegnum síðu sem heitir Soundbetter. Hann rakst á demó með mér, vildi heyra meira og hafði samband við mig. Hann varð strax mjög hrifinn af tónlistinni og röddinni og vildi fá mig út og stýra upptökum á plötu. Ég lagðist í smá rannsóknarvinnu og þá kom í ljós að þessi maður er nokkuð stór úti í hinum ameríska tónlistarheimi. Þegar samstarfið hófst sá ég því ekkert annað í stöðunni en að fara „All-in“. Ég flaug til Hollywood ásamt Hófí minni og tók upp plötuna í einu frægasta hljóðveri heims, SunsetSound í Hollywood.“

Analog borðið í Studio 3. Þar er allt upprunalegt frá sjöunda áratugnum. Ljósmynd: Aðsend.

Stíll gömlu rokkaranna fær að skína í gegn

„Bandaríkin eru alveg með ákveðið sound, sérstaklega þessir gömlu rokkarar sem eru búnir að spila tónlist síðustu 50 árin. Denny Fongheiser sem spilar á trommur er í hljómsveitinni Heart. Leland Sklar sem spilar á bassa hefur spilað með Phil Collins, Toto, BeeGee´s, James Taylor, Waddy Wachtel sem spilar á gítar hefur spilað með Fleetwood Mac, Rolling Stones og Nick Tsang sem spilar á gítar hefur spilað með Ed Sheeran frá byrjun. Þeirra stíll fær alveg að skína í lögunum. Ég var að taka upp í Stúdíó 3 sem er eina stúdíóið sem hefur fengið að haldast upprunalegt. Allt frá tækjum niður í sófasettið. Þarna stóð ég og söng í sama míkrófón og Prince söng Purple Rain þannig að maður reyndi auðvitað að taka inn alla þessa sögu og skila henni á tape,“ segir Arnar, aðspurður hvort staðsetningin hafi haft áhrif á tónlistina sem hann tók upp.

Þetta reddast!

Þegar Arnar er spurður hvort hann hafi rekist á einhverjar hindranir á veginum segir hann: „Allt ferlið hefur bara verið jákvætt, skemmtilegt og ógleymanlegt. Það er þó ein hindrun sem poppar reglulega upp og er hún af hinum sígilda, fjárhagslega toga. Ég á bara eitt ráð við þeirri hindrun og það er að segja við sjálfan mig: Þetta reddast!,“ segir Arnar og yppir öxlum brosandi.

Arnar fer yfir texta og sér hvort gera þurfi breytingar þar á. Ljósmynd: Aðsend.

Einvala lið tónlistarfólks

Megnið af undirleiknum var tekinn upp á Íslandi fyrir brottför og komu nokkrir Íslendingar að þeim upptökum. „Ástkær eiginkona mín, hún Hófí Samúels, tók þátt í textagerð nokkurra laga og var til halds og trausts í lagasmíð. Hún syngur inn raddir. Halldór Gunnar Fjallabróðir stjórnaði upptökum á gítar á nokkrum lögum sem Pétur Valgarð spilaði. Kristinn Sturluson stjórnaði upptökum á sellóleik í tveimur lögum sem Kristín Lárusdóttir, Selló Stína, spilaði. Óskar Einarsson útsetti gospel raddir sem hann sjálfur, Hrönn Svansdóttir og Fanny Kristín Tryggvadóttir sungu inn. En upptökur standa enn yfir þannig þá munu örugglega einhverjir bætast við.“

Unaðslegur hljómur úr 62 ára gömlum Martin D-18

„Eitt laganna á plötunni er tekið upp live. Það var nefnilega þannig að þremur dögum áður en við Hófí flugum til LA, þá slysaðist ég til að semja nýtt lag sem okkur leist svona líka rosalega vel á. Það var engin tími til að pæla í útsetningu eða fá inn hljóðfæraleikarana til að spila inná trackið. Því var ákveðið að leigja gítar í LA og spila þetta bara live í LiveChamber í SunsetSound. Nánast í næsta húsi við stúdíóið er hljóðfæraleiga sem leigir aðeins út vintage hljóðfæri til stúdíóa. Ég fékk að fara inn og valdi mér Martin D-18 frá árinu 1961. Gullfallegt hljóðfæri og hljómurinn alveg unaðslegur,“ bætir Arnar við.

Vel gerð og fjölbreytt plata væntanleg

En við hverju megum við búast eftir þessar upptökur? „Þið megið búast við mjög svo vel gerðri og fjölbreyttri plötu sem inniheldur, að mínu mati, mjög flott og falleg lög. Þetta er alveg melodískt og metnaðarfullt popp/rokk. Það er ekki búið að ákveða útgáfudag en ég stefni á að gefa út smáskífu í oktober,“ segir Arnar að lokum.

Nýjar fréttir