-0.7 C
Selfoss

Ofnbakaðir þorskhnakkar með asískri-fusion sósu

Vinsælast

Tómas Sjöberg Kjartansson er sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég þakka þennan mikla heiður að fá að vera matgæðingur vikunnar. Þetta er búið að vera á bucket listanum síðan ég var ungur peyji.

Ég er enginn listamaður í eldhúsinu en hef gaman að áskorunum og að prófa allskonar.

Meistarinn hann Baldvin Hólm Júlíusson var matgæðingurinn um daginn og hann sendi inn eina réttinn sem ég er með algjörlega á lás og klikkar aldrei. Takk fyrir það.

En rétturinn minn í dag er bragðmikill og skemmtilegur og ég hef eldað hann einu sinni með prýðis árangri.

Fyrir fjóra til sex.

Hráefnalisti:

Þorskurinn:
1 kg þorskhnakki
1 tsk gróft salt
1/2 tsk nýmalaður pipar
1 tsk garam masala
2 tsk túrmerik
1 tsk papriku duft
1/2 hvítlauksduft

Sósan:
75 g smjör
2 skalottulaukar
4 hvítlauksrif
1 kanilstöng
1 msk paprikuduft
2 tsk túrmerik
1 tsk broddkúmen
1 tsk garam masala
fræ úr 4 kardimommum
3-4 negulnaglar
2 msk tómatpúre
1 dós niðursoðnir tómatar
Safi úr 1/2 sítrónu
150 ml rjómi

  • Setjið þorskinn í skál og blandið kryddinu saman við, garam masala, túrmeriki, papríkudufti og hvítlauksduftinu. Saltið og piprið og látið síðan standa í ísskáp í um klukkustund. Fiskurinn þéttist aðeins við að liggja í salti í þennan tíma.
  • Takið eina kanilstöng, þrjá til fjóra negulnagla og svo fræin úr fimm kardimommum. Það kemur mikið bragð úr þessum kryddi.
  • Skerið tvo skarlottulauka og hvítlauksrifin smátt niður og steikið í smjörinu.
  • Bætið við kúfaðri skeið af papríkudufti saman við sósuna.
  • Tvær kúfaðar skeiðar af tómatmauki gefa sósunni fallegan lit og kraft. Og svo túrmeriki, broddkúmeni og garam masala kryddblöndu. Bætið rjómanum saman við og hitið að suðu og látið sósuna krauma í 15 mínútur.
  • Ég klæði i ofnskúffu með álpappír og legg fiskinn ofan á. Blússhita ofninn á hæsta mögulega hita með grillið í gangi!
  • Setjið fiskinn í miðjan ofninn og grillið í sjö til átta mínútur.
  • Tyllið svo fisknum í sósuna og skreytið með steinselju, eða kóríander.
  • Berið á borið með hrísgrjónum og þessu ótrúlega einfalda tómat- og lauksalati. Skerið laukinn og tómatana með mandólíni. Raðið á disk. Setjið safa úr hálfri sítrónu yfir og svo skvettu af jómfrúarolíu. Saltið og piprið.
  • Ég skora næst á Ragnar Örn Traustason þann mikla Selfyssing og frænda minn.
  • Það verður virkilega gaman að sjá hvað hann dregur fram úr erminni. Ég bjó nefnilega með honum í nokkur ár og varð eiginlega alls ekki var við nein meistaraverk í eldhúsinu frá honum. Það kom fyrir að hann lét sér nægja nostra við einn bragðaref í kvöldmat og stundum var það bara Homeblest pakki og 1 líter af Nýmjólk.

Nýjar fréttir