-0.7 C
Selfoss

Umsögn Samtaka orkusveitarfélaga

Samtök orkusveitarfélaga (SO) voru stofnuð árið 2011 til að gæta hagsmuna sveitarfélaga gagnvart nýtingu orkuauðlinda.

Eitt helsta baráttumál samtakanna er að skapa sanngjarna umgjörð um skattlagningu virkjana og orkufyrirtækja. Mikilvægur liður í þeirri baráttu er að tryggt verði að öll mannvirki til orkuvinnslu verði metin til fasteignamats og að af þeim verði greiddur fasteignaskattur til viðkomandi sveitarfélags.

SO hafa sent inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um verkefni starfshóps um skattlagningu orkuvinnslu.

Meginatriði umsagnarinnar eru eftirfarandi:

  1. SO telur tilvísun í orkustefnu Íslands til ársins 2050 sem fram kemur í upphafi umsagnarinnar undirstrika að það er enginn grundvallar ágreiningur til staðar á milli ríkis og sveitarstjórnarstigsins um að þörf er á leiðréttingu á skattaumhverfi raforkuframleiðslu.
  2. Aðildarsveitarfélög SO eru einhuga um það að nærsamfélög orkuvinnslu eiga ekki og geta ekki fórnað sinni náttúru og auðlindum án þess að þau njóti sanngjarns ávinnings af orkuframleiðslunni.
  3. Hið umdeilda rafveituhugtak undanþáguákvæðis 26. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, felur í sér að einungis brot af verðmæti fjárfestingar í uppbyggingu mannvirkja er grundvöllur skattlagningar. Þetta skapar óheilbrigða stöðu við ákvarðanatöku um landnýtingu.

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar um fasteignamat vindorkuvera undirstrikar að þessi regla er tímaskekkja sem verður að afnema. Hið sama á við þegar horft er til lagaþróunar í Danmörku og Noregi varðandi skattlagningu á vindorkuver.

  1. Hvata skortir fyrir nærsamfélög að fórna umhverfisgæðum til raforkuframleiðslu. Samfélagslegur og efnahagslegur ávinningur af raforkuframleiðslu er almennt minnstur þar sem orkan er framleidd, og þar sem umhverfisáhrifin eru mest, en þar verða nánast engin störf til eins og staðan er í dag, nema á meðan virkjanaframkvæmdir standa yfir.

Þetta sjónarmið á enn frekar við þegar horft er til vindorkunýtingar. Þess má vænta að bygging og viðhald vindorkuvera verði að stórum hluta í höndum sérhæfðra erlendra sérfræðinga. Ólíklegt er því að rekstur vindorkuvera skapi staðbundin störf sem skila útsvari til sveitarfélaganna.

  1. Við afnám undanþágu frá fasteignamati skapast forsendur til að leiðrétta skekkju í núverandi löggjöf, þannig að fleiri sveitarfélög njóti ávinnings af orkuframleiðslu.

Þetta er m.a. hægt að gera með réttlátari skattlagningu, sem tekur mið af heildarumfangi og beinum og óbeinum áhrifum orkuvinnslu, en einnig með því að atvinnuuppbygging verði á áhrifasvæðum virkjana, sem efli atvinnustig og byggðir í nærumhverfi orkuvinnslu.

  1. Við breytingar á skattalögum þarf að horfa til þess að framleiðsla á raforku er að breytast og gæti átt eftir að breytast á komandi árum.

SO lýsa sig á þessu stigi opin fyrir því að skoða allar mögulegar leiðir til útfærslu skattkerfisbreytinga, svo sem að tekin verði upp auðlindagjöld, að því gefnu að þær leiðir skili nærsamfélögum beinum tekjum.

En samtökin árétta jafnframt að lagafrumvörp um útfærslu slíkra breytinga þarf að vinna í samráði og fullri sátt við sveitarfélögin.

  1. Óháð því hvaða leið verður valin til sanngjarnari skattlagningar er það eindregin afstaða fulltrúa sveitarfélaga að fyrirkomulagið þurfi að fela í sér beinar og auknar tekjur til sveitarfélaga frekar en t.d. að sveitarfélög þurfi að sækja um greiðslur í sjóð eða að Jöfnunarsjóður verði sá aðili sem skatturinn renni til og annist skiptingu skatttekna til sveitarfélaganna.
  2. SO hefur óskað eftir greiningu frá Háskóla Íslands á mögulegri hlutlægri aðferðafræði til að greina áhrifasvæði vindorku. Niðurstöður þeirrar vinnu ættu að liggja fyrir í lok september og óskar SO eftir tækifæri til að kynna niðurstöður þeirrar vinnu fyrir starfshópnum.

Fleiri myndbönd