-3.4 C
Selfoss

Silja og Kristján taka við rekstri Konungskaffis

Vinsælast

Síðastliðinn föstudaginn var hátíð í Konungskaffi á Selfossi en þá tóku þau Silja Hrund Einarsdóttir og Kristján Eldjárn við rekstri kaffihússins en þau hafa síðustu sex árin búið erlendis, en eru bæði fædd og uppalin á Árborgarsvæðinu.

Konungskaffi hefur nú við vaxandi vinsældir starfað í eitt og hálft ár. Eins og öll hin nýju endurbyggðu hús í miðbænum á Konungshúsið eða Konungskaffi sér einstaka sögu. Með fullum rökum er hægt að halda því fram að það sé eitt fyrsta ferðaþjónustuhús á Íslandi, byggt við Öxarárfoss á Þingvöllum sem gestahús Friðriks 8. konungs á ferð hans um landið 1907. En þeir Friðrik konungur og Hannes Hafstein ráðherra riðu Konungsveginn um Árnessýslu sem lagður var í tilefni af komu hins tigna gests. Síðar var Konungshúsið rifið og endurbyggt á Valhallarstíg sunnan við Valhöll og þá gistu þar á Alþingishátíðinni 1930 Kristján 10. konungur sonur Friðriks 8. og Alexandrína drottning hans. Síðar varð húsið nefnt ráðherrabústaðurinn og hinn 10. júlí 1970 varð sá mikli harmleikur að í húsinu fórust þau Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Sigríður Björnsdóttir kona hans þar í eldsvoða og ungur dóttursonur þeirra Benedikt Vilmundarson.

Konungskaffi er það hús sem mörgum þykir skemmtilegt að bjóða gestum sínum kaffi og er nú höfuðgestastofa Selfyssinga. Konungskaffi er notalegt og skreytt með fallegum munum. Eina sem vantar og myndi prýða húsið væru myndir af hinum tignu gestum og ekki síður mynd af Bjarna og Sigríði forsætisráðherrahjónunum.

Nýjar fréttir