-8.2 C
Selfoss

Les og hlusta á bækur í allskonar skapi

…segir lestrarhesturinn Dagbjört Harðardóttir

Dagbjört Harðardóttir er 36 ára gömul, nýflutt í Hafnarfjörðinn frá Selfossi þar sem hún starfaði í frístundageiranum. Hún á einn fimm ára dreng og er með BA gráðu í félagsráðgjöf. Dagbjört er áhugakona um gott kaffi, forvarnir og að sjálfsögðu góðar bækur.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Núna er ég að lesa bókina Mánasystirin eftir Lucindu Riley. Bókin er fimmta bókin í bókarröðinni um sjö systur. Ég er búin að lesa hinar fjórar og því lá auðvitað beinast við að lesa fimmtu bókina. Ég ætla rétt að vona að það komi út í heildina sjö bækur, sem sagt ein fyrir hverja systir. Bókaröðin er vel skrifuð og heldur lesandanum við efnið út í gegn. Systurnar voru ættleiddar af manni sem skírði þær eftir sjöstirninu Sjö systur. Hver bók segir sögu hverrar þeirra í nútímanum og síðan fléttast inn gamlir tímar sem tengja þær við uppruna sinn. Mjög merkilegar, fróðlegar og skemmtilegar bækur.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég þarf alltaf að hafa smá spennu í lífinu almennt svo ég hugsa að það séu spennubækur. Best er samt þegar þær eru „alvörulegar“. Sem sagt svona spennusögur sem gætu mögulega gerst í alvöru án þess þó að vera alvöru. Mér finnst nefnilega mjög erfitt að lesa um eitthvað sem ég veit að hefur gerst í alvöru. Ég lifi mig svo inn í bækur og tilfinningarnar á bak við þær að mér finnst betra ef ég get hugsað: Þetta er bara bók.

Fékkstu lestraruppeldi sem barn?
Já ég er alin upp við mikinn lestur. Ég byrjaði snemma að lesa léttar bækur, líklega um fjögurra ára aldurinn. Þetta varð reyndar smávegis vandamál þegar ég byrjaði í skóla því mér leiddist alveg hrikalega í fyrsta bekk þar sem farið var yfir stafina og lestur kenndur. Sem betur fer eru tímarnir aðeins breyttir núna, vona ég og börn sem kunna nú þegar að lesa þegar komið er í skóla, sem ég hef heyrt að sé reyndar algengt, fá verkefni við sitt hæfi. Foreldrar mínir voru dugleg að lesa fyrir mig og ég er alin upp við stórt bókasafn á heimilinu.

Einhverjar uppáhaldsbækur úr bernskunni?
Uppáhalds bókin mín úr æsku er klárlega Röndóttir spóar. Hún er eftir Guðrúnu H. Eiríksdóttur og ég man að mér þótti hún alveg rosalega spennandi. Það er bók sem mér finnst að öll börn ættu að lesa. Mér fannst Lotta alltaf mjög skemmtileg líka og dáðist af útsjónarsemi hennar og dugnaði.

Segðu í stuttu máli frá lestrarvenjum þínum.
Þær eru nú bara svona allskonar. Ég les fyrir son minn á hverju kvöldi og hef gert síðan hann fæddist, þó það hafi nú aðeins verið hlegið að mér þegar ég var að lesa bók fyrir nýfætt barn. En ég trúi því að lestur skipti máli alveg frá byrjun. Sjálf les ég og hlusta á bækur á öllum tímum sólahringsins og í allskonar skapi. Mér finnst gott að nota lestur til þess að slaka á eftir daginn, ná ró fyrir svefninn eða bara til þess að koma mér í gang á morgnana. Ég nenni til dæmis ekki að fara út að hlaupa eða ganga nema með góða bók í eyrunum. Ég er eiginlega stanslaust annaðhvort að lesa eða hlusta á bækur og er búin með rúmlega 60 bækur á þessu ári.

Einhverjir uppáhaldshöfundar?
Erfið spurning. Ég er aðdáandi Camillu Lackberg. Ég er kannski sein á vagninn því ég er nýbúin að uppgötva hana og hef rifið í mig allar bækurnar hennar. Þær einhvernveginn halda athygli minni alveg í gegn. Harpa Rún Kristjánsdóttir er einnig í miklu uppáhaldi, en bókin hennar Kynslóð er klárlega ein besta bók sem ég hef lesið.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?
Já aldeilis. Bókin sem ég minntist á áðan, Kynslóð eftir Hörpu Rún, hélt mér vakandi fram á morgun. Ég mætti líka seint í veislu þegar ég var að lesa hana og var alvarlega að íhuga að sleppa bara veislunni þar sem mér þótti svo erfitt að hætta.

En að lokum Dagbjört, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?
Ég myndi skrifa barna og/eða unglingabækur. Mér finnst auðvelt að ná til barna og unglinga og á auðvelt með að setja mig inn í þeirra heim og reyni alltaf eins og ég get að koma inn allskyns forvörnum í öllu sem ég geri og segi. Einnig vil ég efla allt sem tengist lestri hjá börnum. Það er nefnilega svo margt sem lesturinn gefur okkur. Ef svo heppilega vildi til að sólahringurinn myndi lengjast aðeins þá skrifa ég barnabók.

____________________________________________________

Tillögur að spennandi Lestrarhestum sendist á jonozur@gmail.com

Fleiri myndbönd