-9.8 C
Selfoss

Orkídea hlýtur veglegan styrk

Vinsælast

Sunnlenska nýsköpunarfyrirtækið Orkídea er þátttakandi í nýju Evrópuverkefni sem var samþykkt fyrir nokkru en er orðið opinbert núna. Verkefnið snýst um þróun á sjálfbærum virðiskeðjum með endurnýjanlegri orku til að svara þörfum bænda, Value4Farm. Verkefnið hlaut styrk upp á tæplega 6,4 milljónir evra, eða um 945 milljónir króna. Alls taka 14 aðilar þátt víðsvegar um Evrópu og er hlutur Orkídeu um 44 milljónir króna. Verkefnið mun standa yfir í 3,5 ár og hefst 1. sept. nk. InAgro ráðgjafafyrirtækið í Belgíu stýrir verkefninu.

Orkidea er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytis.

Value4farm verkefnið miðar að því að benda á og sannreyna ýmsar leiðir til að gera landbúnað óháðan jarðefnaeldsneyti í samræmi við Grænan Sáttmála ESB. Leitað verður leiða til að nýta staðbundnar uppsprettur endurnýjanlegrar orku, einkum lífgas, í þátttökulöndunum og tengja þá nýtingu við sjálfbæra matvælaframleiðslu.

Fyrr á þessu ári fékk Orkídea, í félagi við First Water ehf. (áður Landeldi ehf.), Ölfus Cluster, Bændasamtökin og SMJ í Danmörku, LIFE styrk úr sjóðum ESB til uppsetningar á áburðar- og lífgasverksmiðju í Þorlákshöfn. Heildarstyrkurinn þar hljóðaði upp á um milljarð króna. Með þessum árangri er sýnt að einbeitt sókn í sjóði ESB getur verið mikil lyftistöng fyrir íslenskt samfélag til sjávar og sveita.

Nýjar fréttir