-0.7 C
Selfoss

Árnessýsla án sjúkrabíls í 46 tíma

Sveinn Ægir Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg.

Í sumar, líkt og áður, er fólk á faraldsfæti um landið. Margir velja að elta sólina og njóta alls þess sem fallega landið okkar hefur uppá að bjóða. Fjöldi fólks kýs að njóta sumardaganna í sumarbústað eða á tjaldsvæðum víða um land. Þessu fylgir að mörg landsvæði verða mun fjölmennari yfir sumarmánuðina en almennt er aðra mánuði ársins.

Árnessýslan er álagspunktur

Í Árnessýslu eru átta sveitarfélög og nær landsvæði þess frá Þjórsá í austri til Hellisheiðar í vestri. Á þessu svæði búa um 21 þúsund manns allt árið um kring. Margir vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru í Árnessýslu og er áætlað að 80% ferðamanna sem komi til landsins heimsæki þá. Ekki má heldur gleyma sumarbústöðunum sem eru vel yfir fimm þúsund talsins. Það má því ætla að fólksfjöldi á svæðinu tvöfaldist þegar mest lætur og verði yfir 40 þúsunda manns. Þegar veðrið er gott líkt og hefur verið í sumar má gera ráð fyrir að þessi mikli fjöldi fólks sé í umdæmi Árnessýslu í margar vikur.

Fyrir allan þennan fjölda standa aðeins fimm sjúkraflutningamenn vaktina hverju sinni eða tvær áhafnir á tvo sjúkrabíla, ásamt einum varðstjóra til stuðnings og eru áhafnirnar staðsettar á starfsstöð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) á Selfossi. Það má velta því fyrir sér hvort að sá mannskapur sé nægur til að sinna öllum mannfjöldanum á svæðinu og hvort að eðlilegt sé að hann sé allur staðsettur á Selfossi?

Tvöföldun á fjölda útkalla í Árnessýslu

Frá 2007 hafa verið tveir fullmannaðir sjúkrabílar á sólarhringsvakt í Árnessýslu. Þá var íbúafjöldi 14.400 og fjöldi ferðamanna ekki nálægt því sem hann er í dag. Útköllum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Sem dæmi voru þau alls 1.656 árið 2011, 2.259 árið 2015 og 3.431 árið 2022. Þetta er meira en tvöföldun útkalla á ellefu árum en ennþá eru bara tveir fullmannaðir sjúkrabílar í allri sýslunni. Fyrstu sjö mánuði þessa árs hafa verið 2.144 útköll sem er aukning, samanborið við árið í fyrra. Það sem er þó mest sláandi er að í júní voru útköll umfram mannaða bíla, 46 klukkustundir. Það þýðir að í 46 klukkustundir var ekki hægt að kalla á aðstoð þar sem ekki var mannaður sjúkrabíll til staðar. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti.

Ef horft er í íbúafjölda Árnessýslu má sjá að 85% íbúa eru í innan við 15 mínútna akstri fyrir sjúkrabíl. Ef útkall kemur úr uppsveitum Árnessýslu getur viðbragðstíminn verið mun lengri eða allt að 40 mínútur. Á því svæði eru einmitt stærstu tjaldsvæðin, sumarhúsabyggðir og fjölförnustu ferðamannastaðir landsins. Í dag og í raun frá árinu 2011 hefur sjúkrabíll þó ekki verið fyrsta viðbragð í uppsveitum ef upp kemur alvarlegt slys. Frá árinu 2011 hefur verið í gildi samningur við Björgunarfélagið Eyvind á Flúðum um vettvangshjálp. Samningurinn felur í sér að Bf. Eyvindur hefur til taks hóp vettvangsliða sem getur brugðist við ef HSu óskar eftir aðstoð. Sjálfboðaliðar sinna því oft fyrsta viðbragði í alvarlegum útköllum,  því miður er þó aldrei öruggt að einhver úr hóp sjálfboðaliða geti mætt á vettvang til að sinna sjúklingi þar til sjúkrabíll kemur á staðinn.

Einn sjúkrabíll á vakt í lengri tíma

Með aukningu innlendra og erlenda ferðamanna hefur útköllum fjölgað jafn og þétt og er tímalengd hvers útkalls mjög breytileg. Sjúkraflutningar þurfa jafnvel að fara í útköll inn á hálendi, t.d. í Kerlingarfjöll og á afrétti en útköll þangað taka að lágmarki 3 tíma og er þá aðeins einn sjúkrabíll á vakt fyrir allt svæði Árnessýslu í önnur útköll. Í Rangárvallasýslu er svo einn sjúkrabíll á vakt og fari hann í útkall til Reykjavíkur eða inn á hálendi stendur starfsstöðin á Selfossi vaktina fyrir Rangárvallasýslu á meðan í viðbót við Árnessýsluna.

Hugsa nýjar leiðir

Þingvallaþjóðgarður ákvað að fara nýjar leiðir til að tryggja öryggi gesta í þjóðgarðinum. Stofnunin gerði samning við HSu um að staðsettur væri bráðaliði með ökutæki og viðeigandi búnað til að sinna fyrsta viðbragði á svæðinu. Þessi lausn léttir töluvert undir sjúkraflutningum þó þeir verði að bragðast við og sækja sjúkling þegar um alvarlegt atvik er að ræða. Sjúklingur hefur á meðan fengið skjót og fagleg viðbrögð frá sérfræðingi sem getur undirbúið hann fyrir flutning.

Ljóst er að mikið álag er á sjúkraflutningum í Árnessýslu. Yfirvöld þurfa að bregðast hratt við og að tryggja að sjúkraflutningar geti bæði brugðist skjótt við og tryggt að sjúkrabíll sé ávallt til taks á svæðinu þegar þörf er á. Það telst varla boðlegt að bíða eftir aðstoð í neyð, í 40 mínútur á fjölförnum stöðum líkt og við Geysi eða Gullfoss. Hvað þá að sjúkrabíll sé ekki til taks í 46 klukkustundir líkt og gerðist í júní sl.

Það er mat undirritaðs að þörf sé á þriðja fullmannaða sjúkrabílnum á svæðinu og prófa leið Þingvallarþjóðgarðs á fleiri stöðum, í stað sjálfboðaliða, til að tryggja styttra viðbragð í neyð.

Nýjar fréttir